Í fréttum vikunnar er rýnt í umfjöllun fjölmiðla um þá ógn sem steðjar að frjálslyndu lýðræði vegna uppgangs íhaldssamra hægriafla. Bent er á hvernig glæný „réttindi“ hvers konar eru notuð sem yfirvarp til að ganga á önnur eldri réttindi. Þá er vikið að netöryggi Íslendinga og hópspjöllum og loks eru menn að opna hjarta sitt hér fyrir hinni öldnu vísindagrein stjörnuspekinni.
Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Þ. Þorgrímsson, Reykjavík Foto, Happy Hydrate og Myntkaup.
Lausleg uppskrift:
Fréttir! Atlantshafsbandalagið fagnar 75 ára afmæli þessa dagana og haldið er upp á það á NATO-fundi í Washington, þar sem mikilvægt fólk ræðir mikilvæg mál, meðal annars allt það vonda fólk sem vill gera okkur NATO-meðlimum ýmislegt. Raunverulega. Við erum í þessu hernaðarbandalagi og það virðist eiga óvini og þeir virðast ekkert endilega alveg ólíklegir til þess að vilja á einhverjum tímapunkti gera einhverjum okkar eitthvað, eins vænisjúkt og það í raun hljómar á okkar tímum, við höfum lifað hér margar kynslóðir friðartíma.
Menn hafa ekki augljósa hagsmuni af því að hertaka okkur Íslendinga og því er netöryggi það sem fólki hér á Íslandi er ofarlega í huga, ekki síst til dæmis eftir að stöndugt fjölmiðlafyrirtæki varð fyrir alvarlegri netárás á dögunum. Ég hef rætt við starfsmenn Morgunblaðsins og menn eru að tala um að þetta hafi ekki verið neitt grín.
Á Vísi má lesa viðtal við Gunnar Inga Reykjalín forstöðumann skýja- og netreksturs Origo, sem segir netárásum fjölga stöðugt á Íslandi og að á hans ferli hafi aldrei verið meira að gera í að hjálpa til við að verjast þeim. En hvað þýðir þetta fyrir mig sem óbreyttan borgara? Netárásir? spyr lesandinn og skyndilega kemur Gunnar Ingi sér BEINT að efninu og segir það sem allir eru að velta fyrir sér, bein tilvitnun: „Manni er það annt um það sem maður hefur sett inn á Messenger og maður man ekkert almennilega hvað maður hefur sett inn. En ef einhver kæmist í þessi skilaboð væri það mögulega það versta sem hefur komið fyrir mann,“ segir Gunnar. Þetta er skyndilega svolítið einlægt. Beint frá hjartanu frá tæknimanninum: Ef einhver kæmist í chöttin mín væri það mögulega það versta sem hefur komið fyrir mig. Gaman að heyra að á bakvið hvern forstöðumann skýja- og netreksturs hjá Origo sé líka bara gaur í groupchatti. Kannski veitti hópspjöllum landsins ekki af forstöðumanni skýja- og netreksturs, einum í hvert chat. Huga að forvörnum á ólgutímum.
*
Kosningar í Frakklandi fóru þannig að íhaldssama hægrið náði ekki þeim árangri sem margir ýmist óttuðust eða vonuðust eftir en eftir sem áður er mikil óreiða í frönskum stjórnmálum. Við hér höfum fylgst með umfjöllun Ríkisútvarpsins um kosningarnar, þar sem augljóst var að hvað sem gengi á, mætti Þjóðfylkingin svonefnda ekki vinna. Torfi Tulinius prófessor sem er mjög fróður um allt franskt var stjórnmálaskýrandi RÚV í þessum kosningum og hann leyndi ekki andúð sinni á þessum íhaldssama hægriflokki. Athygli okkar vakti öll umræðan um lýðræðið sjálft, að hér sé alltaf lýðræðið sjálft í húfi. Það er sagt að þessir öfgahægriflokkar eins og þeir eru kallaðir ógni sjálfu lýðræðinu. En að hvaða leyti?
Eina mögulega ógn við lýðræðið nefnir Torfi í samtali við RÚV og það er að Þjóðfylkingin vilji selja ríkisfjölmiðla Frakka til einkaaðila – það er ógnun við lýðræðið samkvæmt Torfa, það er bein tilvitnun. En er það ekki mjög umdeilanleg fullyrðing, að einkavæðing ríkismiðla ógni lýðræðinu? Það ógnar kannski ítökum ákveðinna afla sem hafa stjórn á ríkismiðlunum á þessari stundu, en það ógnar varla lýðræðinu per se að fjölmiðlun fari fram á frjálsum markaði? Það mætti jafnvel halda því fram að ríkisfjölmiðill sé einmitt ekki mjög lýðræðislegt fyrirbæri, enda getur kjósandinn ekki haft mikil áhrif á ríkismiðilinn, hvernig hann er rekinn, hver starfar þar, hvað er gert við fjármunina, um hvað er fjallað – öllu heldur er ríkismiðillinn oft ákveðið ríki í ríkinu, rétt eins og hér á Íslandi. Er það lýðræðislegt? Það fer auðvitað eftir því hvað fólk telur vera lýðræðislegt. Hefðbundna sýnin er fyrst og fremst að lýðræði sé einfaldlega að lýðurinn ráði, að lýðurinn geti losað sig við valdhafa ef meirihluti er fyrir því og kosið sér nýjan. Að lýðurinn, fólkið, kjósendur, hafi einhverja undankomuleið frá yfirboðurum sínum og áhrif á það hver tekur við. Torfi Tulinius telur hins vegar ekki endilega að þetta sé aðalatriðið, hann sagði við Vísi um Þjóðfylkinguna frönsku, flokk Marine Le Pen: „Torfi segir skiljanlegt en í leið uggvænlegt að flokkurinn njóti svona mikils fylgis. „Þetta er flokkur sem er ekki með sama sterka samband við lýðræðishefð Vesturlanda. Þetta er flokkur sem telur að meirihlutaræði skipti meira máli en ekki endilega að þau þurfi að vernda réttindi minnihlutans.“
Flokkurinn hafi verið blendinn (heldur Torfi áfram) í stuðningi við Úkraínu og ýmislegt sem þeir stefna á að gera nái þeir þingmeirihluta gæti verið byrjun á hægfara skerðingu á réttindum fólks í Frakklandi.“ Þar komum við aftur og aftur að réttindunum. Í gagnrýni frjálslyndra vinstrimanna á svona róttæka íhaldsflokka, hina andlýðræðislegu öfgahægriflokka, er umræðan mjög fljót að gera það sem hún gerir þarna hjá Torfa að eitthvað er sagt svona um meirihlutaræði, lýðræði, allt í góðu en svo mæta menn á staðinn með mikilvægara hugtak í lýðræðisfræðunum: Réttindi. Það er eitthvað til sem heitir réttindi, líka stundum kallað mannrétindi, og þetta trompar aðra þætti lýðræðisins, eins og þetta gamaldags meirihlutaræði.
En hvaða réttindi eru þetta? Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingarmaður segir frjálslynt lýðræði hvíla á nokkrum meginstoðum og að ein þeirra séu mannréttindi. Hann skrifar, og Torfi Tulinius tekur undir í deilingu, Guðmundur Andri skrifar: „Í fimmta lagi hvílir frjálslynt lýðræði á mannréttindum, þar sem reynt er að tryggja frelsi einstaklingsins; í því felst meðal annars að tjá hug sinn opinberlega án þess að eiga fangelsi á hættu; að eiga í sig og á og hafa þak yfir höfuðið; geta stundað vinnu; njóta jafnréttis óháð kyni, trú eða uppruna.“
Guðmundur Andri gerir okkur að minnsta kosti þann greiða að leggja ekki frjálslynt lýðræði að jöfnu við lýðræði, af því að frjálslynt lýðræði er greinilega allt önnur skepna. Þar einmitt eru það mannréttindi að eiga í sig og á og hafa þak yfir höfuðið og sömuleiðis eru það mannréttindi að njóta jafnréttis óháð kyni, trú eða uppruna. Þegar Torfi Tulinius varar við því að Þjóðfylkingin sé ekki í góðu sambandi við lýðræðishefðina nefnir hann þetta að þingmeirihlutinn gæti farið að hefja hægfara skerðingu á réttindum fólks í Frakklandi. Skerðingu á hvaða réttindum? Það kemur ekki fram. Hér komum við að því sem er í raun eftirtektarverðast í þróun hins frjálslynda lýðræðis á Vesturlöndum, sem er hinn sífellt stækkandi bálkur réttinda. Það sem áður voru tjáningafrelsi, félagafrelsi, trúfrelsi, réttur á sanngjarnri málsmeðferð, kosningaréttur og slík grundvallarréttindi – er nú orðið lengri listi. Mannréttindi að hafa húsnæði, að fá mat, að vera laus við alla orðræðu sem kynni að móðga mann, mannréttindi jafnvel að stunduð sé umhverfisvernd, margvísleg mannréttindi á sviði kynferðismála, mannréttindi að fá að halda í sína menningu og jafnvel mannréttindi að njóta tiltekinna efnislegra gæða. Svona fjölgar mannréttindum stöðugt og stundum, þegar þau verða til, trompa þau aðra gamaldags þætti lýðræðisins og jafnvel einmitt önnur eldri réttindi. Bent hefur verið á að í Covid hafi til dæmis rétturinn á fundafrelsi þurft að víkja fyrir nýlegri rétti annarra hópa, sem var hinn skyndilegi réttur á góðri heilsu. Þar viku ein gamaldagsréttindi fyrir nýjum réttindum sem hið frjálslynda lýðræði nútímans gat af sér til að réttlæta eigin yfirgang gegn borgurum. Sömuleiðis er það mikið tekið í allri umræðu um hatursorðræðuna svonefndu, að réttur fólks til að verða ekki fyrir neinni nokkurs konar „mismunun“ eða „ójafnrétti“ - sem er líka nýlegur réttur - trompar rétt annarra til að segja það sem þeir hugsa, ef það skyldi valda „mismunun“ í huga einhvers. Við gætum tekið útlendingamál í því samhengi, þar sem margir líta svo á að réttur innflytjenda til þess að þurfa ekki að heyra neikvæða umræðu um innflytjendastefnu í landinu sem þeir eru komnir til, margir líta þá svo á að sá réttur innflytjendanna trompi rétt þinn til að gagnrýna stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Svona mætti lengi halda áfram.
Svo er sagt að mannréttindabarátta eigi í vök að verjast (Henrý Alexander ríkissiðfræðingur segir þetta í nýlegri grein til stuðnings „Mannréttindastofnun“ Vinstri grænna) – en er það mögulega fyrirsjáanleg afleiðing þess að ríkisvaldið útvíkkar mannréttindaúrvalið á næstum hverjum degi, að „mannréttindabarátta“ fái á sig ákveðið bakslag. Ef allt eru mannréttindi, er óhjákvæmilegt að það verði erfitt að standa vörð um þau réttindi á hverju stigi.
Á sama tíma er þetta mjög heilagur flokkur, þegar einhver nefnir mannréttindi, er eins gott að þú farir ekki að setja þig upp á móti því. Ef einhver málaflokkur nær að falla inn í „mannréttindaflokkinn“ þá verður hann að vera óumdeildur, eins og til dæmis öll kynja- og kynferðismálin – það eru mannréttindi og þau eru þar með ekki til umræðu. Þau eru svo sjálfsögð að ég man til dæmis þegar Baldur Þórhallsson bauð sig fram til forseta sagði hann að svona já að lagasetningarvald væri auðvitað allt hjá Alþingi en ef Alþingi ætlaði hins vegar að takmarka réttindi kvenna og hinsegin fólks, þá myndi hann sem forseti sko vísa þeim til þjóðarinnar. Sagði ekkert þarna um réttindi karla. Hitt auðvitað sjálfsagt – óumdeilt atriði – að vísa réttindaskerðingu til handa konum og hinsegin fólki til þjóðarinnar. Réttindi karla hins vegar. Málefni Alþingis bara. Kemur forseta ekki við.
Já á hvaða leið er frjálslynt lýðræði, þar sem ný pólitísk réttindi sem ríkisvaldið er hrifið af traðka á gömlum sem ríkisvaldið er ekki svo hrifið af lengur. Í Þýskalandi sá maður í vikunni fjallað um að hið þýska Verfassungschutz, leyniþjónustubatterí með ríkulegar rannsóknarheimildir sem ætlað er að verja stjórnarskrána og stjórnskipun í landinu, og er greinilega líka með upplýsingaveitu á Twitter um hvað er rétt og röng skoðun, maður sá að Stjórnarskráreftirlit þetta hafi gefið það út í fræðsluefni að þjóðernisstefna, Nationalismus, sé nú skilgreind sem yfirdrifið þjóðarstolt og að í henni felist samkvæmt skilgreiningu, niðurrif á öðrum þjóðum og um leið höfnun á grunngildum frjálslynds lýðræðis. Að þjóðernisstefna feli óhjákvæmilega í sér niðurrif á öðrum þjóðum og að hún feli í sér höfnun á grunngildum frjálslynds lýðræðis, þjóðernisstefna. Það er ekki tiltekið hvaða grunngildum þjóðernisstefnan brýtur á en það er einkar áhugavert að það sé staðan í augum þýska ríkisins á 21. öld því að forvitnilegt nokk þá eiga bæði þjóðernisstefna og frjálslynt lýðræði upptök sín í sömu frelsisbyltingum átjándu og nítjándu aldar. Lengi vel hélst þetta náið í hendur og gat hvorugt án annars verið, þjóðernisstefna og frjálslynt lýðræði, en nú hefur þetta verið skilið í sundur með rækilegum hætti. Þjóðernisstefna er nú andstæðan við frjálslynt lýðræði og hún er þar með vond og verður ekki umborin, heldur bannfærð formlega. Þetta er Þýskaland – en það sama er uppi á teningnum hér heima, þjóðerni, þjóðremba, þjóðrækni – þetta er allt sett í sama pott – og hin frjálslynd ráðandi öfl hafa almennt andstyggð á slíkum hugsunarhætti. Ertu ekki að fylgjast með fréttum? Þjóðrækni ógnar lýðræðinu, eða nánar tiltekið frjálslynda lýðræðinu, þar sem frjálslyndi þátturinn fær reyndar sífellt meira vægi en lýðræðisþátturinn sífellt minna vægi. Lýðræði er enn þá í nafninu, eins og lýðræði var í nafninu í Austur-Þýskalandi og Norður-Kórea er að nafninu til lýðveldi - og Kínverski kommúnistaflokkurinn heitir enn þá kommúnistaflokkurinn þótt hann sé allt önnur skepna. Þegar ég fer út í það er frjálslyndi kannski líka bara eitthvað sem varð eftir í nafninu. JÆJA!
Eftir situr þetta umhugsunarefni: Öll þessi nýju réttindi og mannréttindi sem spretta upp eins og gorkúlur kunna að vera ágæt – en vörumst að leyfa ekki ráðamönnum í okkar frjálslyndu lýðræðisríkjum að misbeita þeim til að réttlæta ólýðræðislegar aðferðir sínar.
*
Yfir í annað. Stjörnuspeki er ekki fyrirbæri sem við höfum gert mikil skil á þessum vettvangi fram að þessu enda lifum við tíma vísindahyggjunnar og ef trúarbrögð koma við sögu eru þau ekki að nafninu til byggð á stjörnuspeki, þótt sá stjörnuspekingur sem ég ræddi við í Skoðanabræðrum hlaðvarpi mínu og bróður míns í vikunni, haldi því að vísu fram að allt hið kristna hugsanakerfi byggist að miklu leyti á stjarnspekilegum grunni. Alla vega: Stjörnuspeki felst í grunninn í því að álykta um persónu þína á grundvelli þess hvenær þú nákvæmlega fæddist. Stjörnuspeki er í grunninn tímatalsfræði – þú fæðist á ákveðnum tíma og ákveðnum stað og það hefur merkingu. Út frá því getum við dregið kerfisbundnar ályktanir um persónuleika þinn og jafnvel tilgang þinn á jörðinni. Það eru sem sé í þessari hugsun engar tilviljanir. Ég fékk stjörnukort frá Gunnlaugi Guðmundssyni stjörnuspekingi sem hefur verið að setja slík kort saman í hátt í hálfa öld. Hann veit hvað hann syngur og mér fannst allt sem þarna stóð rétt. En maður er hikandi. Maður leyfir sér ekki að fara inn í þetta – sem karlmaður. Flestar konur eru mjög hrifnar af þessu. „Þú ert augljóslega með tungl í meyju“ – þið þekkið þetta. En ég verð að segja, ég er hrifinn, enda auðvitað vel tengdur inn í mitt kvenlega eðli og mér fannst margt sem Gunnlaugur sagði mjög merkilegt. Eins og til dæmis sú kenning að ráðandi öfl séu ekki endilega hrifin af fræðum sem auka sjálfsþekkingu fólks – og því sé svona hugmyndum úthýst. Fáum brot.
Já, Gunnlaugur Guðmundsson. Hann er líka á leið í nýsköpunarútrás með stjörnuspekiforrit ásamt Ásgeiri Kolbeinssyni og fleirum – mjög merkilegt verkefni, ræðum það í þessum þætti af Skoðanabræðrum.
Að öðru leyti. Kæru hlustendur, áhorfendur, lesendur. Við komumst ekki lengra með þetta að sinni. Við minnum á samstarfsaðila okkar, Myntkaup, Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Happy Hydrate. Við minnum á kjörorð fréttaþáttarins, ást á ættjörðu á ást á sannleika. Og við boðum að hér munum við sjást að nýju að viku liðinni og biðjum í millitíðinni Guð að blessa ykkur.
Share this post