Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00
Transcript

Það eina sanngjarna í stöðunni er smá óréttlæti

Björgum sundlaugunum með því að rukka eðlilegt verð – en mismuna þó þeim sem koma

Þessa grein færðu frítt, en aðrar ekki. Farðu í áskrift, njóttu hins vitsmunalega ávinnings og styddu við frjálsa fjölmiðlun í landinu:

Áskrift

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að skerða kvöldopnun sundlauga um helgar um klukkustund, þannig að nú mun loka klukkan níu, áður var það klukkan tíu. Þetta tekur gildi um næstu mánaðamót og er ekki óumdeilt.

Traustur bandamaður ritstjórans gekk inn á skrifstofuna í vikubyrjun og bölvaði borgarfulltrúum í sand og ösku vegna rekstrar sundlauga í Reykjavík og ekki var það allt málefnalegt. 

Hann gekk svo langt að víkja að útlitstengdum þáttum; óhraustlegu yfirbragði ímyndaðra borgarfulltrúa og hann sagði mega ráða af því yfirbragði að umræddir borgarfulltrúar færu aldrei í sund, slík heilsulind hlyti að vera þeim framandi. 

Af þeim sökum hlyti sú ákvörðun þeirra að byggja á vanþekkingu, að skerða opnunartíma lauganna um helgar til klukkan níu um kvöld. Hingað til hefur verið opið til tíu.

Fjallað er um breytingarnar í grein á vef borgarinnar.

Munum að við borgum með útsvari okkar fyrir mikla hersingu upplýsingavarða sem vinna fyrir stjórnmálamennina og gegn borgurum, kallaðir upplýsingafulltrúar. Fyrirsögn greinarinnar þar sem þessi veigamikla breyting er kynnt er svohljóðandi:

Þjónusta sundlauga stóraukin á rauðum dögum

Hljómar eins og frábær frétt í fljótu bragði, þar til kemur í ljós að hún er ekki annað en brella til að grafa niður upplýsingarnar sem mestu varða. Eftir langt mál um samræmdan klukkustundafjölda í afgreiðslutíma á rauðum dögum, kemur eina setningin sem skiptir máli: „Þá verður sú breyting gerð frá og með 1. apríl næstkomandi að laugarnar verða opnar til klukkan 21:00 laugardag og sunnudag í stað klukkan 22:00.“

Þessi textauppbygging minnir okkur á að upplýsingafulltrúarnir eru ekki blaðamenn, heldur andstæðan við blaðamenn. Hér drýgja þeir enda höfuðsynd í blaðamennskunni, sem heitir að „bury the lede“ á ensku – að grafa fréttapunktinn.

Einfalt vandamál kallar á einfaldar lausnir

Framangreindur góðkunningi ritstjórans sagði að ef borgarfulltrúir legðu einhvern tíma leið sína í sund sæju þeir að sundlaugarnar eru pakkaðar á þeim tíma sem stendur til að skerða, seint á kvöldin. Í staðinn væri hyggilegt að loka til dæmis á milli tvö og fjögur og hafa þá opið fram á kvöld.

Ritstjórinn telur seint að sátt myndi nást um slíka ráðstöfun, ekki frekar en sátt ríkir núna breytingar á helgaropnun.

Þess í stað tel ég að verja megi þjónustu sundlauganna með því að bæta tekjuöflun til muna.

Það myndi lýsa sér í vinsamlegri mismunun ferðamanna í þágu heimamanna og þar teldi ég að hyggilegast væri að stórlækka verð á árskorti í sund. Nú er það í 44.840 krónum en mætti lækka um helming í 22.420 krónur. Þá þyrfti aðeins að fara í sund um 1,5 sinnum í mánuði að meðaltali til þess að kortið væri búið að borga sig miðað við verð einnar ferðar núna.

Á móti mætti hækka verð fyrir eina ferð fullorðins upp í 4-5.000 krónur, sem er líklega sanngjarnt gjald miðað við þjónustuna sem menn eru í raun að fá. Fáir ferðamenn myndu kippa sér upp við slíkt verð enda fer varla neinn ferðamaður fram á að útsvarsgreiðendur og heimamenn í sveita síns andlitis niðurgreiði lúxusböð þeirra árið um kring.

Málið leyst! Eða er þetta stjórnarskrárbrot? Ég sé fyrir mér að til séu einhver leiðinleg rök sem mæla gegn þessu – en ég skil þetta eftir hérna engu að síður.


Þessa grein færðu frítt, en aðrar ekki. Farðu í áskrift, njóttu hins vitsmunalega ávinnings og styddu við frjálsa fjölmiðlun í landinu:

Áskrift

Discussion about this podcast