Í fréttum vikunnar að þessu sinni er fjallað um frammistöðu forsetaframbjóðendanna hingað til, gerð athugasemd við ræðuhöld þeirra, farið yfir hugmyndir Viðreisnar um aukna dánaraðstoð, nýja hatursorðræðulöggjöf í Skotlandi, séreignastefnu á undanhaldi og stríðsrekstrarmaskínuna í Bandaríkjunum.
Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Myntkaup og Þ. Þorgrímsson.
Eftirfarandi er lauslegt handrit/uppskrift að því sem sagt er, en talað orð gildir:
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra föstudaginn 5. apríl 2024; það er nýr mánuður með nýjum tækifærum og ég birti í vikunni brot úr aðalaprílljóðinu á X: það er Eyðilandið eftir T.S. Eliot í frábærri þýðingu Sverris Hólmarssonar; Apríl er grimmastur mánaða, græðir - grös upp úr dauðri moldinni, hrærir - girndum saman við minningar, glæðir - vorregni visnaðar rætur. Ótrúleg ljóðlist – hverjum dettur í hug að segja að mánuðurinn apríl hræri girndum saman við minningar? Aðeins skáldum.
Það er afskaplega mikið um að vera eins og endranær og hætt við að ekkert annað komist að en „forsetakosningarnar“ – við látum ekki málefni líðandi stundar kæfa sannleiksleit okkar og erum að fjalla um margt annað í þessum þætti, líknardráp, hatursorðræðu, stríðsrekstur og hagnaðardrifin leigufélög.
Við erum – ólíkt flestum öðrum fjölmiðlum sem þú lest eða horfir á – ekki háð styrkjum frá menningarmálaráðherra – við erum á frjálsum markaði í samstarfi við öflug íslensk fyrirtæki. Myntkaup – Reykjavík Foto – Þ. Þorgrímsson.
*
Réttast að byrja þetta á forsetakosningum. Farið yfir sviðið og spiluð ýmis brot.
*
Fréttir frá Skotlandi vöktu athygli þeirra sem hafa áhyggjur af sífellt vaxandi tilhneigingu vestrænna lýðræðisríkja til að þrengja að tjáningarfrelsi fólks undir því yfirvarpi að verið sé að verja lauslega skilgreinda fórnarlambshópa frá „hatri“ og „ofbeldi.“ Ný haturslög tóku gildi í Skotlandi á mánudaginn, sem fela lögregluyfirvöldum það verkefni að fylgjast mun nánar en áður með tjáningu borgara og leggja mat á kvartanir sem þeim berast um að þessi eða hinn sé að stunda thatursorðræðu á netinu. Hatursorðræðulöggjöf hefur verið í gildi í Skotlandi fram að þessu en nú er verið að útvíkka hana þannig að hún nái líka til aldurs, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar og kynvitundar. Töluvert er deilt um síðastnefnda þáttinn, kynvitundina, enda lét einn ráðherrann hafa eftir sér að það væri innan ramma þessara laga að menn gætu verið sóttir til saka fyrir að „miskynja“ fólk – þ.e. að vísa til upprunalegs líffræðilegs kyns þeirra sem skilgreina sig sem annað kyn. Harry-Potter-höfundurinn J.K. Rowling hefur farið mikinn í þessari umræðu og tók fjölda dæma af líffræðilegum körlum í kvennafangelsum og neitaði að kalla þá konur – og skoraði á lögregluna að handtaka sig, sem lögreglan gerði þó ekki. Það er töluvert mikill hiti í þessari umræðu enda eru stjórnvöld þarna á grundvelli tiltölulega almennra skilyrða – að hvetja til haturs eða að hvetja til mismununar – að hóta því að refsa fólki. Hvenær hvetur maður til haturs, hvenær hvetur maður til mismununar – svörin við því eru og verða í flestum tilvikum hápólitísk. Og viljum við hafa hápólitískan refsiramma sem er mjög auðvelt að misbeita gegn borgurum? Það er spurningin hérna – og það er það sem menn eru að vara við. Ef maður styður heilshugar herta löggjöf á sviði tjáningar af því að manni líkar ekki það sem fólk segir á netinu, er hollt að prófa að taka svona löggjöf og snúa henni við; prófa að sjá fyrir sér að hin hliðin, þessi sem manni finnst svona full af hatri og öðru slæmu, myndi taka við stjórnartaumunum í landinu og fara að sækja menn til saka fyrir tjáningu. Sú hlið ætti vafalaust auðvelt með að festa fingur á hatri eða mismunun í máli þinnar hliðar. Þegar þetta er skoðað svona, á að renna upp fyrir manni fljótlega að þetta er hál slóð að feta, að fela lögreglunni meiri háttar eftirlitshlutverk með tjáningu borgara. Það bara er það. Engu að síður er tíðarandinn allur á þá leið á Vesturlöndum, ekki síst innan Evrópusambandsins, að herða mjög tökin á tjáningu borgara. Þetta truflar íslenska stjórnmálamenn ekki mikið – öllu heldur gengur Katrín Jakobsdóttir meira og minna í takt við þessa þróun – en skilaboðin voru rétt í aprílgabbi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem birti falsaða yfirlýsingu frá íslenskum stjórnvöldum þar sem þessi aðför skoskra stjórnvalda að tjáningarfrelsinu var fordæmd. Sú yfirlýsing var auðvitað aldrei gefin út – en að hún sé aprílgabb segir mikið um hugarfarið.
*
Svefn er stórmál þegar kemur að lýðheilsu þjóðarinnar og það liggur meira og minna fyrir að við sofum ekki nóg. Svefnfræðingurinn Matthew Walker gerði garðinn frægan hér á sínum tíma með bók sinni Þess vegna sofum við og Walker er enn að rannsaka þessi fræði. Hann var til viðtals hjá Andrew Huberman (sem lenti reyndar í því á dögunum að gerð var tilraun til slaufa honum á þeim forsendum að hann átti í ástarsambandi við fleiri en eina konu í einu, en það mistókst) - Walker var til viðtals hjá Huberman, fáum brot. Svo fjallað um brot frá Ingólfi Bjarna Sigfússyni í Kveiki.
*
Annað mál. Við höfum áður nefnt það lauslega og án þess að gera mikið mál úr því svo sem, að líta megi á menningu okkar hér á Vesturlöndum sem dauðakölt í ákveðnum skilningi. Mörg stefnumál stjórnmálanna hníga í þá átt að halda áfram að draga úr fæðingartíðni á meðal borgara og hér á Íslandi, sem víðar, hefur fæðingartíðni gjörsamlega hrunið, þannig að mannfjöldinn er hættur að viðhalda sér. Þetta er fæðingarhlutinn; við stuðlum markvisst að færri fæðingum – en ef við erum áfram í þeim gír að saka Vesturlönd um að vera dauðakölt, þá er næsta eðlilega skrefið að byrja að stuðla markvisst að dauða fólks. Þingflokkur Viðreisnar lagði fram frumvarp þess efnis í síðasta mánuði að heimila svonefnda dánaraðstoð í íslensku heilbrigðiskerfi, sem á gera fólki sem býr við „ómeðhöndanlega og óbærilega þjáningu“ rétt til þess að þiggja aðstoð frá lækni við að deyja með lyfjagjöf. Svona líknardauði hefur þegar verið lögleiddur sums staðar á Vesturlandi og í greinargerð frumvarpsins um að gera það líka hér, segir að „ólögmæti dánaraðstoðar á Íslandi takmarki grundvallarréttindi einstaklingsins til að taka ákvarðanir um eigið líf.“ Það er ein leið til að líta á það. Frumvarp Viðreisnar er sagt byggja á hollenskum lögum – en segja má að Hollendingar hafi verið þekktir eða alræmdir, eftir því hvernig á það er litið, fyrir nokkuð djörf skref í málefnum líknardauða. Í bandaríska miðlinum The Free Press birtist í vikunni viðtal við hina tuttugu og átta ára hollensku konu Zoraya ter Beek – sem stefnir á líknardauða í upphafi næsta mánaðar. Í viðtalinu segir að ter Beek hafi átt sér drauma um að klára skóla og verða sálfræðingur, en að þunglyndi hennar, einhverfa og jaðarpersónuleikaröskun hafi aftrað henni. Því sé hún nú orðin þreytt á að lifa, þrátt fyrir að vera ástfangin af fertugum kærasta sínum, sem er forritari. Þau búi saman í fínu húsi með tvo ketti. Sem sagt: Líknardauði sem áður var hugsaður fyrir fólk með ólæknandi veikindi á lokastigi, hefur í auknum mæli verið notaður sem úrræði fyrir andlega veikt fólk. Vísað er í sérfræðing í málaflokknum í þessari grein, sem segir að líknardauði hafi normalíserast á síðustu misserum á meðal lækna og sálfræðinga og hætt að vera það örþrifaráð sem hann var. Bein tilvitnun: „Ég sé að verið er að fara þessa leið á meðal fólks með andleg veikindi, sérstaklega ungs fólks með andleg veikindi, þar sem heilbrigðisstarfsfólk virðist gjarnara að gefast upp á fólki en áður.“ Já – líknardauði í Hollandi – á þetta að verða fyrirmynd okkar hér heima? Auðvitað meiriháttar flóknar siðferðislegar spurningar.
*
Það eru stríðstímar og það fer eftir því hvern þú spyrð, hver það er sem vill vera í stríði. Á undanförnum áratugum hafa Bandaríkin ekki hikað við að taka þátt í stríði ef þeir telja þess þurfa og margir benda í því samhengi á eilífðarvélina sem er hergagnaiðnaðurinn, að þetta þurfi að halda áfram að malla einhvern veginn. En stríð er ekki náttúrulögmál – stríð eru ákvarðanir stjórnmálamanna og eins og við höfum bent á í þessum þætti, þá hæfir það eiginlega ekki 21. öldinni með sinni háþróuðu tækni að þjóðríki leysi ágreining sín á milli með hernaði. Það er ekkert göfugt við það – það er ekkert karlmannlegt við það – það er bara hrein og bein sturlun.
Það er normalíseruð hugsun hjá okkur að það sé eðlilegt að Bandaríkin standi í eða komi nálægt einhverjum stríðsrekstri á hverjum tíma – en það er áhugavert að skoða söguna í því samhengi. Þarf þetta að vera svona? Var þetta hugsjónin með stofnun Bandaríkjanna? Edward Snowden uppljóstrari deildi áhugaverðri tilvitnun í einn landsföðurinn á X á dögunum, engan annan en Benjamin Franklin, sem var auðvitað mikill blaðamaður á sínum tíma: „Það hefur aldrei verið neitt sem heitir gott stríð eða slæmur friður. Þvílíkar framfarir og umbætur í lifnaðarháttum sem manninum hefði mátt hlotnast, ef peningnum sem varið hefur verið í stríðsrekstur, hefði verið varið til almannaheilla. Betri landbúnaður, jafnvel landbúnaður á fjallstindum, hvaða ár hefði ekki mátt brúa, hvaða vatnsleiðslur, hvaða nýju vegi og önnur mannvirki hefði ekki mátt byggja með því að verja milljónunum í eitthvað gott, þeim milljónum sem í staðinn var varið í óskunda, varið í að kalla hörmungar yfir þúsundir fjölskyldna og skemma líf svo margs vinnandi fólks sem hefði annars lagt gott af mörkum til samfélagsins.“
Þetta eru mikilvæg skilaboð frá Benjamin Franklin – það er ekkert til sem heitir gott stríð eða slæmur friður. Þetta gleymist.
*
Eitt í viðbót. Við fjölluðum á ritstjori.is í vikunni um áform þess efnis að hleypa íslenskum lífeyrissjóðum af meiri þunga inn á leigumarkað með íbúðarhúsnæði, með því að leyfa sjóðunum í auknum mæli að fjárfesta í hagnaðardrifnum leigufélögum. Fjármálaráðherra hefur kynnt áform um að breyta lögunum í þessa veru. Því er haldið fram að með því að fjársterkir aðilar komi inn á þennan markað, muni hvatar batna til að byggja meira húsnæði og það er líklega ekki hægt að mótmæla því. En ég benti á hitt í grein minni að þetta er ekki ólíklegt til að vera enn annað skref Íslendinga í átt frá séreignastefnunni og í átt að meira leiguhagkerfi. Þróunin í átt frá séreignastefnu er alþjóðleg og það má leika sér að því að setja hana í samhengi við almenna tilfinningu fólks um að almenningur eigi sífellt minna og leigi sífellt meira. Þessi tilfinning liggur í loftinu og hún er ekki á sandi byggð, samanber ofangreint. Það er ekki að ástæðulausu sem orð danska jafnaðarmannsins Ida Auken á World Economic Forum hafa náð flugi og orðið að dystópísku slagorði: „Þú munt ekki eiga neitt og þú verður hamingjusamur.“ Gríski fjármálaráðherrann fyrrverandi og samfélagsrýnirinn Yanis Varoufakis heldur því fram að við búum þegar í póstkapítalísku samfélagi, sem er „technofeudalism“ – lénsskipulag tækninnar. Þar sem lénsherrar eiga allt, en leiguliðarnir leigja allt, allt frá heimilistækjum og bílum til heimilanna sjálfra og lóða. Lénsskipulagið góða… Grípum niður í lífsskilyrði leiguliða í lénsskipulaginu á miðöldum í Evrópu samkvæmt Wikipedia: „Þeir þurftu oft að vinna 3-4 daga vikunnar fyrir lénsherra upp í leiguna og afganginn af vikunni unnu þeir við að rækta mat fyrir sig og fjölskyldu sína. Sumir bændur unnu eingöngu á akrinum en þeir þurftu þá að borga lénsherranum mikinn meirihluta þess sem þeir ræktuðu.“ Er þetta svo framandi? Þú verður hamingjusamur, segja þau. Jæja.
*
Þá nær þetta ekki lengra hjá okkur að sinni í fréttum vikunnar. Ritstjori.is - fremsti fréttamiðill landsins segja margir. Fylgið ritstjóranum á hinum aðskiljanlegustu miðlum. Við minnum á samstarfsaðilana Þ. Þorgrímsson, Myntkaup og Reykjavík Foto. Svo minnum við á grunngildi þessarar starfsemi; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér að viku liðinni – guð blessi ykkur.
Fréttir vikunnar | Forsetaframbjóðendur dæmdir, dánaraðstoð Viðreisnar og hatursorðræða í Skotlandi