Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00
Transcript
1

Fréttir vikunnar | Gaslýsingar kynjafræðinnar, Kristrún vs. Þórdís Kolbrún og jafnréttisskólakerfi

Í fréttum vikunnar er gagnrýni sósíalistaforingja svarað, farið er yfir kaup Landsbankans á Tryggingarmiðstöðinni, staða kynjafræðinnar, jafnrétti í skólakerfinu og ný pæling í leikskólamálum.
1

Í fréttum vikunnar er gagnrýni sósíalistaforingja svarað, farið er yfir kaup Landsbankans á Tryggingarmiðstöðinni, farið er í saumana á breyttum viðhorfum í samfélaginu til kynjafræði sem fræðigreinar (Karlmennskan að leggja upp laupana) og svo er rætt um jafnréttishugsjónina í skólakerfinu, ásamt nýstárlegri lausn Breta við leikskólavandanum.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Myntkaup.

Áskrift að efni aðeins fyrir áskrifendur


Að neðan er lausleg uppskrift þess sem sagt er í þættinum, en talað orð gildir, eða það sem sannara er:

Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra, það er 22. mars 2024 og við erum í banastuði í þessum vikulega fréttaþætti með einföldu grunngildin; ást á ættjörðu, ást á sannleika. 

Þetta eru gildi framtíðarinnar, vel að merkja, ást á ættjörðu, ást á sannleika, ekki fortíðarinnar eins og sumir vilja meina, sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson, sögulega séð góðvinur ritstjórans, beitti því fantabragði að reyna að ýta ritstjóranum út úr skápnum í vikunni, og sagði að ég væri gamall karl í ungum líkama í innblásinni gagnrýni á þennan öfluga fréttaþátt og þar hélt Gunnar Smári áfram að klifa á því að minn málflutningur væri eins og ég væri sjötugur, að ég héldi að twenties (áratugurinn núna) séu nýju seventies. Gott og vel – sko, við fögnum málefnalegri gagnrýni en ég er alltaf hugsi, þegar sterkasta gagnrýni sem menn geta kurlað saman er bara að vísa í ártal og tímatal almennt. „Þú átt ekki að hugsa svona! Árið er 2024. Svona er bara nútíminn. Þetta er bara gamaldags.“ En hugmyndirnar sjálfar, af hverju ræðum við þær ekki, hvert er gildi hugmyndanna, nei, ræðum það ekki, þær eru bara gamaldags og árið er 2024 - þess vegna á þetta að vera svona eða hinsegin. Já, þetta er hætta hinnar blindu framfaratrúar, sem gengur út á að líta svo á að framrás tímans sé það sama og framfarir; að ganga út frá því að allt horfi alltaf nauðsynlega til betri vegar; að breytingar séu í eðli sínu af hinu góða. Bara eitt ár enn, þá verður allt gott - ímyndið ykkur allt félagslega réttlætið árið 2025. Það væri vafasamt ef allir væru haldnir þessari blindu framfaratrú og því eigum við að vera þakklát fyrir íhaldssemina. Hlutverk góðra íhaldsmanna er að halda stillingu og gleyma sér ekki í breytingunum, heldur reyna að leggja mat mat á þær og spyrja: Eru þessar breytingar endilega allar góðar? Höfum við gengið götuna til góðs? Höfum við gengið götuna til góðs. Það var spurning Jónasar Hallgrímssonar á sínum tíma; það var góð spurning og nauðsynleg, því að svarið á tíma Jónasar var nei við höfðum ekki gengið götuna til góðs; og þá var hið nauðsynlega viðbragð andleg vakning til að breyta hlutunum til betri vegar. Og Jónas spurði af ást á ættjörðu og ást á sannleika – það var samt ekki tekið vel í þessa spurningu. En við spyrjum þessarar spurningar hér í þessum, stundum íhaldssama fréttaþætti. Og Gunnar Smári – það ert þú sem ert gamli karlinn! 

Það eru fréttir vikunnar hérna fram undan, af MÖRGU að taka. Ritstjórinn er í samstarfi við öflug íslensk fyrirtæki á frjálsum markaði.

Fréttir úr miðstýrða hagkerfinu okkar hér heima -, kyrkingartak stýrivaxta Seðlabankans er áfram þétt utan um háls okkar Íslendinga – stýrivextir haldast óbreyttir. Nú og á sama tíma og ríkið þykist reyna að losa um eignarhald á fjármálamarkaði, hefur Landsbankinn, eini alveg ríkisbankinn sem er eftir, gert myndarlegar tilraunir til að stækka - í staðinn fyrir það sem við seljum af Íslandsbanka, stækkum við Landsbankann. Áform Landsbankans um að kaupa Tryggingarmiðstöðina hafa legið fyrir mánuðum saman en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir steig þó ekki fastar til jarðar en svo að tala aðeins um að henni litist ekki á þetta í hlaðvarpsviðtali. Svo gerist þetta, menn kaupa T M og þá fyrst segist hún ætla að stöðva kaupin. Hefði þurft að gera það fyrr - þetta er pólitískt klúður.

Þórdís Kolbrún og Kristrún Frostadóttir ræddu þetta mál í Kastljósinu, ef við kíkjum aðeins á það.

Styðjum Þórdísi Kolbrúnu í að reyna að stöðva þetta, en það verður að segjast, Kristrún Frostadóttir tók hana í bakaríið í Kastljósinu. 

*

Halla Tómasdóttir tilkynnti um framboð á sunnudaginn, daginn sem eldgos hófst að nýju á Reykjanesskaga, sem einhverjir sögðu til marks um að sá forsetaframbjóðandi væri ekki endilega í sérstaklega góðu sambandi við þjóðina. Á þessu stigi á meðan önnur framboð eru ekki komin fram telst ekki ólíklegt að Höllu gæti gengið ágætlega, þótt ég viti ekki alveg með þetta. Ritstjórinn er pro-business eins og sagt er á útlensku og væri ánægður að fá þarna einhvern úr viðskiptalífinu eftir átta ár þar sem fræðasamfélagið hefur haft tögl og hagldir á Bessastöðum - þannig að það væri ferskt, að fá frumkvöðla að borðinu, en á síðari árum hefur Halla þó, virðist vera, farið sífellt meira inn á það svið viðskiptalífsins sem ritstjóranum hugnast síst, sem eru viðskiptaleiðtogar að lesa okkur alþýðunni pistilinn í sífellu um þýðingarlausar klisjur eins og sjálfbærni, jafnrétti og umhverfismál. Ekki þýðingarlausir málaflokkar, svona útaf fyrir sig endilega - ekki misskilja mig - en þú veist að fólk er langt leitt í sovéskum Sameinuðuþjóðaheilaþvætti þegar það klárar eðlilegu hlutina til að segja um þessi mál og þarf að byrja að spinna bull um þessi mál, eins og þegar Halla skrifaði grein í Time Magazine núna í fyrra um það hvernig kynjajafnrétti væri bráðnauðsynlegt til að… draga úr kolefnislosun mannkynsins. Rangt – þessi mál eru ótengd. Ef það er minnnssssta tenging er það örugglega svona hverfandi fylgni. Annars bara rangt. Aðgreind mál. Þannig að af hverju að skrifa ranga hluti í virðuleg tímarit? Hvað ertu þá raunverulega að nota orkuna í í lífinu? Jæja. Baráttan um Bessastaði heldur áfram, við þurfum greinilega enn að bíða eftir Okkar Frambjóðanda. 

Halla, nei takk. Baldur Þórhalls ætlar fram, nei takk, held ég. Ástþór – kannski að hans tími sé kominn. Arnar Þór Jónsson lúmskur kóngur – Ásdís Rán, já drottning, væri góð.  

*

Yfir í annað. Ritstjórinn leggur það í vana sinn að hvetja þá til dáða sem berjast af sannfæringu fyrir, alla vega að þeirra mati, göfugum samfélagslegum hugsjónum, hann leggur það í vana sinn að hæðast ekki að þeim sem synda á móti straumnum, að lasta ei laxinn sem leitar móti straumi sterklega og stiklar upp fossa, eins og skáldið sagði – ég styð slíka hegðun og því ætla ég síst að fara að gleðjast yfir því hér í dag að Þorsteinn í Karlmennskunni virðist vera hættur í Karlmennskunni og farinn að leita sér að annarri vinnu, eins og hann hefur verið að greina frá á Instagram í vikunni. Þorsteinn háði sína baráttu í þónokkur ár, við vorum ekki sammála henni og hún varð skrýtnari og skrýtnari, en hann háði hana af dugnaði og með ágætum árangri, virðist vera allt í lagi tekjum við og við, átta milljónum króna frá forsætisráðuneytinu, en nú leggur hann upp laupana. Eins og maður skilur þetta. Og eins og ég segi: Við ætlum ekki að fara að velta okkur upp úr því þrátt fyrir ómaklegar árásir hans og tengdra aðila á þessa starfsemi hér í gegnum tíðina.

Okkur finnst samt þess virði að rýna aðeins í það hugmyndafræðilega samhengi sem þetta gerist í. Það rennur sífellt meira upp fyrir okkur, að árið er ekki 2021 lengur. Ég vel þar ár af handahófi, en það er lýsandi ár, við getum fullyrt að tíðarandinn þá var allur, getum við sagt, undirgefnari gagnvart öfgafullum hugmyndastraumum eins og þeim sem Karlmennskan hefur þróast út í. Árið 2021 var árið þar sem við sáum það gerast í kosningasjónvarpi Stöðvar 2, að leiðtogar hvers einasta stjórnmálaflokks í framboði til Alþingis voru látnir segja já við þeirri spurningu, hvort þeir vildu gera kynjafræði að skyldugrein í framhaldsskólum. Kynjafræði að skyldugrein; allir sögðu já. Myndum við sjá það sama núna? Myndi Bjarni ekki treysta sér til að spyrna við fæti og biðja fólk vinsamlega að fara að ræða eitthvað sem skiptir máli? Myndi Sigmundur segja já við því að gera „kynjafræði“ að skyldugrein í framhaldsskólum? Kristrún Frosta? Sigurður Ingi? Ég held að menn myndu alveg setja fyrirvara við þetta.

Kynjafræði á náttúrulega að heita fræðigrein, jafnvel vísindagrein. Þegar maður stendur gapandi frammi fyrir ýmsum hugmyndum greinarinnar eins og að kyn sé bara samfélagslegur tilbúningur, að það sé enginn líffræðilegur munur á körlum og konum og að allt sem skipti okkur máli í sambandi við kyn sé bara félagsleg ákvörðun, þegar maður stendur frammi fyrir þessum hugmyndum er maður stundum gaslýstur (einmitt vinsælt hugtak hjá kynjafræðingum) með svona pælingum um að allar þessar fullyrðingar, allar þessar hugmyndir eigi sér stoð í rannsóknum, vísindalegum rannsóknum – könnunum, fræðilegri umfjöllun. Karlmennskan byggir allt á rannsóknum, heimildum, vísindum. En hvað er vísindaleg umfjöllun, hverjar eru heimildirnar, hver eru vísindin sem spretta úr þessum farvegi? Þau eru auðvitað rammpólitísk og rammhugmyndafræðileg, sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum, eins og sannaðist á sínum tíma þegar bitrir andstæðingar kynjafræðinnar í Bandaríkjunum tóku sig til og sendu bullgreinar á virt kynjafræðitímarit og fengu birt. Fáum brot frá 2018.

Já, hegðun hunda í garðinum er til marks um nauðgunarmenningu, var fullyrt í fræðigreininni, sem fékkst birt. Og það var ekki fáránlegasta fullyrðingin sem komst í gegnum “nálarauga ritrýninnar”. Og ekki aðeins það, ekki aðeins fengust bullgreinar þessa hóps birtar, heldur voru höfundarnir við fleira en eitt tilefni hvattir til að ganga lengra í ályktunum um efnið sem þeir voru að skrifa um. Ég skil að það kann að þykja neðanbeltis að vísa í þetta einstaka mál til þess að grafa undan greininni, þetta er auðvitað ekki alveg nóg til að varpa rýrð á heila fræðigrein, en samt. Þetta minnir okkur á að tilhneigingin innan þessarar nýlegu vísindagreinar er auðvitað að ýta undir og gera mikið úr niðurstöðum sem renna stoðum undir helstu hugmyndafræðilegu kenningar greinarinnar. Það er óumdeilt. 

Nú, þrátt fyrir þessar hæpnu fræðilegu undirstöður greinarinnar er hún kennd á framhaldsskólastigi á Íslandi og hefur verið um nokkurt skeið. Talandi um árið 2021 þá hefur ritstjórinn upplýsingar um að alla vega þá hafi hlaðvarpið Karlmennskan verið skylduhlustun í kynjafræðiáfanga í Verzlunarskólanum. Þar var það sem sé kynnt sem skyldunámsefni, vissulega í valfagi (þetta er ekki orðið að skyldufagi enn þá), í þessu valfagi var Karlmennskan samkvæmt mínum upplýsingum skyldunámsefni, hlaðvarpsþættir þar sem rætt var við mjög róttæka hugmyndafræðinga og hlustendum var fluttur boðskapur á borð við það einmitt að stórfurðulegar hugmyndir okkar skrýtnu nútímamannanna um að það séu til tvö kyn séu ekkert annað en arfleifð vestrænnar nýlenduhyggju og heimsvaldastefnu. Eins og við segjum: Þetta eru fínustu pælingar, hægt að hafa gaman af þessu, hægt að velta þessu fyrir sér, en skylduhlustun fyrir framhaldsskólanema sem sko fá þau fyrirmæli frá foreldrum sínum að hlusta á kennara sína og taka mark á námsefninu í skólanum. Ef kennarinn er róttækur kynjafræðiaktívisti með mjög byltingarkenndar hugmyndir um mannlegt eðli og því fylgja oft hugmyndir um framtíðina í sósíalíska fyrirmyndarríkinu, þá hljóta náttúrulega foreldrar hægt og rólega að fara að gauka því frekar að börnum sínum að taka því með nokkrum fyrirvara sem kennarinn segir í skólanum. Talandi um „skautun”.

Já, 2021 og nú er árið 2024. Ég þekki ekki hvernig kynjafræðikennslu er háttað í Verzló núna, líklega óbreytt, kæmi mér ekki á óvart ef svona verður bara róttækara og róttækara, en utan kynjafræðisöfnuðarins, úti í samfélagi, eru hlutirnir að breytast. Eins og ég sagði hér áðan: Karlmennskan er að leggja upp laupana og ef til vill hefur það táknræna þýðingu, að það sé að rofa til í hugsunarhætti Íslendinga. Það rennur hægt og rólega upp fyrir fólki að þótt það geti verið áhugavert umhugsunarefni, er líklega ekki uppbyggilegt fyrir líf fólks að sannfærast af trúarhita um að grundvallarsambandið á milli karls og konu sé ofbeldissamband, samband geranda og þolanda, kúgara og hins kúgaða – og að engin iðrun karlsins verði á einni mannsævi næg til að bæta fyrir syndir forfeðranna. Árið 2021 og já öll síðustu ár, þá var andrúmsloftið í samfélaginu á þá leið gagnvart þessum hugmyndum að menn lúffuðu, óskuðu þess þegjandi að senn gengi þetta yfir, og vildu bíða þetta af sér. Það er búið. Nú er fólk farið að hugsa þetta öðruvísi, enda orðið ljóst að öflin sem er við að etja munu ekki linna látum fyrr en fullnaðarsigur er unninn og menningarbyltingu hefur verið komið til leiðar. Þeir sem hafna “Karlmennskunni”, þeir sem eru á annarri heilbrigðari skoðun um samfélagið óska sér annars konar menningarbyltingar; þeir óska sér tíma þar sem nýir og bærilegri hugmyndastraumar ná yfirhöndinni; tímar jákvæðni, róttækrar persónulegrar ábyrgðar, styrks, bjartsýni, hreysti og kraftmikillar framtíðarsýnar, þar sem ekki allt skiptist í eilífðargerendur og eilífðarþolendur, forréttindahópa og jaðarsetta og linnulaus átök þar á milli; heldur þar sem Íslendingar taka höndum saman á meðan hver og einn tekur fulla ábyrgð á sjálfum sér og eigin örlögum, hættir að vera fórnarlamb eigin tilveru, nýtir til fullnustu þá hæfileika sem hann hefur, treystir sér til að skara fram úr án samviskubits og byggja upp öflugt samfélag. Í einföldu máli: Uppbygging - ekki niðurrif. Það er árið 2024 – það er skipbrot aumingjavæðingarinnar. Þið heyrið að ritstjórinn er bjartsýnn. Segjum það í bili um Karlmennskuna (trúi varla að þetta sé að hætta).

*

Yfir í annað. Við fjölluðum í síðustu viku um það ófremdarástand sem ríkir í leikskólamálum í Reykjavík og nú fáum við tíðindi frá Bretlandi sem gætu orðið okkur Íslendingum að innblæstri í þessum málum. Í bænum Chester á Norður-Englandi hefur stofnun verið komið á fót sem er í raun blanda af leikskóla og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þar verja elstu og yngstu kynslóðir samfélagsins drjúgri stund dagsins saman, þar sem hvor hópurinn fær nokkuð fyrir sinn snúð; eldri kynslóðirnar fá upplífgandi félagsskap og yngri kynslóðirnar fá fólk sem hefur tíma til að sinna þeim, þótt sannarlega gerist hlutirnir stundum svolítið hægt. Sem betur fer hefur unga fólkið líka tíma. Það er falleg grein á vef Guardian um þessa áhugaverðu tilraun, sem virðist raunverulega vera að ganga frábærlega vel. Þetta er auðvitað ekkert annað en afturhvarf til samlífis á milli kynslóða sem áður einkenndi samfélög okkar áður en stofnanavæðingin tröllreið öllu – og að mati ritstjórans er engin ástæða til annars en að Íslendingar íhugi þennan kost, eða kynni sér að minnsta kosti árangurinn. Það hljóta að vera samlegðaráhrif!

*

Yfir í annað. Menntamál, það liggur fyrir að menntamál eru á slæmum stað á Íslandi. Menn hafa haft samband við ritstjórann og bent honum á að Katrín Jakobsdóttir, þegar hún var forsætisráðherra, kom fram með nýja menntastefnu, nýja aðalnámskrá, þar sem gífurleg áhersla var lögð á jafnrétti, mun meiri en í fyrri námsskrám. Og við spyrjum: Ef öll áherslan er á jafnrétti, hvenær byrjarðu að fórna færni, hæfileikum og því að fólk skari fram úr? Skurðpunkturinn er einhvers staðar. Ef ég fletti upp í menntastefnunni (Control-F segir stundum meira en 1000 orð) þá finn ég orðið jafnrétti 40 sinnum en orðið færni 20 sinnum. Segir kannski ekki allt, en segir eitthvað, við ræddum um þetta í Skoðanabræðrum, ég og Bergþór Másson bróðir minn.

Spilað brot úr þættinum.

Gildin í skólakerfinu… Umhugsunarefni… Þegar við hugsum um árangurinn í skólakerfinu; hann er ófullnægjandi; þurfum við þá ekki að spyrja okkur, hvaða markmið höfum við sett okkur með skólakerfinu? Skoðanabræður - gúglið okkur, finnið okkur á Patreon.

*

1 Comment