Fréttir vikunnar | Innræting í grunnskólum, horfnar færslur Felix og ballið búið hjá sveitarfélögum

Fréttir vikunnar: Kynjamál í grunnskólum, Twitter-færslur eiginmanns forsetaframbjóðanda, femínískar vopnasendingar og hægrisveifla í háskólanum.
Transcript

No transcript...

Í fréttum vikunnar er fjallað um kynjamál sem nú er kennt í grunnskóla í Reykjavík sem réttlætismál, vikið er að horfnum færslum Felix Bergssonar og ummælum hans um þjóðtunguna, farið er yfir femínískar vopnasendingar, fjármál sveitarfélaga og hægrisveiflu í háskólanum.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Myntkaup.

Lausleg uppskrift að því sem fjallað er um í þættinum, talað orð gildir:

Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra á föstudeginum langa þann 29. mars 2024, við hefjum þennan vikulega fréttaþátt á að óska ykkur gleðilegra páska – og svo hefjum við þáttinn eins og endranær á að minna á grunngildi þessarar starfsemi; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við erum að taka upp á miðvikudegi en það breytir því ekki að það er ýmislegt um að vera; mjög margt um að vera.

*

Baráttan um Bessastaði heldur áfram þótt Katrín Jakobsdóttir haldi þjóðinni enn í gíslingu með því að tilkynna ekki af eða á um framboð – munið að við erum að taka upp á miðvikudegi vegna páskanna, þannig að Guð veit hvort eitthvað hafi gerst á miðvikudegi eða fimmtudegi sem breytir dæminu. Guðni í blaðinu í dag, útilokar ekki að halda áfram. En. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti var í góðu viðtali í Silfrinu fyrr í vikunni; og maður hugsaði helst: Æ, nennir þú ekki bara að koma aftur, Óli; örugglega margir sem hugsuðu það ekki en ég, svona smá. Eitthvað öryggi í honum. Festa. 

Frambjóðendurnir sem við höfum séð núna eru ekki sérlega spennandi; það fer ekki vel á því til dæmis sem hefur verið fjallað um hjá Felix Bergssyni eiginmanni Baldurs Þórhallssonar að undanförnu, að Felix sé búinn að eyða Twitter-reikningi sínum til að þurrka útáralanga sögu af því að hjakkast í pólitísku skítkasti á netinu; ekki mikið öryggi í því, ekki mikil festa að ætla að bara að láta fortíðina hverfa; Felix að kalla fólk pakk, rudda, sjokkerandi fávita, fasista, viðbjóðslega karlhlunka, ógeð, dreggjar samfélagsins, púff! farið – en skjáskotin gleyma engu. En svona er nútíminn, svona talar fólk – og svona er pólaríseringin – kannski ekki við Felix að sakast að hann hrífist með.

Eitt af því sem Felix sagði truflar ritstjórann þó ef hann sér þá Baldur og Felix fyrir sér á Bessastöðum og það er tíst frá Felix um þjóðtunguna, Felix skrifaði í ágúst 2023: “Allt þetta uppnám yfir íslenskunni er gott og gilt enda mikilvægt að eiga tungumál án þess að menn detti í einhverja þjóðernishyggju og hroka.“ Felix er greinilega einn af þeim sem getur ekki minnst á mikilvægi þjóðtungunnar án þess að setja við það hundrað fyrirvara og tengja metnað fyrir þjóðtungunni í sífellu við einhverjar vafasamar stjórnmálastefnur. Felix skrifar áfram: „Mér finnst hins vegar grundvallaratriði að við hugsum um HVAÐ við tjáum en ekki HVERNIG.“ - Veit ekki hvernig ber að skilja þetta – hljómar eins og það skipti ekki máli á hvaða tungumáli hlutirnir eru sagðir, svo lengi sem merkingin er rétt. Ég verð að segja ég persónulega er ósammála því, ég eiginlega er hrifnari af búningi orðanna en innihaldi þeirra, en kannski er það vegna þess að ég er létt einhverfur. Eða, öllu fremur: Mér finnst orðaval hluti af merkingu þess sem fólk segir. Fallegt mál tjáir fallega hugsun. 

Hvað um það. Þetta er áhugavert svona pólitískt; þessi viðkvæmni fyrir umræðu um þjóðtunguna birtist okkur víða; “hroki, þjóðernishyggja”; Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur hefur meðal annars sett fram verðuga gagnrýni á andstöðu Eiríks Rögnvaldssonar málfræðings um hugmyndir þess efnis að gera íslenskukunnáttu að skyldu fyrir leigubílaleyfi; af því að Eiríkur segir að þar sé verið að nota íslenskuna sem vopn í útlendingaandúð - sem eru stór orð og er líklega orðum aukið - Eiríkur er af þessum sökum andsnúinn frumvarpinu, ekki síst væntanlega vegna þess líka að það eru íhaldssamir hægrimenn sem standa að frumvarpinu. Birgir Hermannsson varar við þessu, hann varar við því að frjálslyndir vinstrimenn - í mótstöðu sinni við hugmyndir frá hægri í þessu máli – muni halda svo mikið að sér höndum að þeir, eins og Birgir skrifar, „eftirláti Birgi Þórarinssyni (Sjálfstæðismanni, áður Miðflokksmanni) og félögum þann fjölda Íslendinga sem finnst sjálfsagt að tala íslensku í leigubílum (og annars staðar í daglegu lífi). Síðan skilja menn ekkert í vinsældum popúlista…“ skrifar Birgir. Já – það getur verið vafasamt að leyfa pólaríseringunni að ná slíkum tökum á sér að maður verði kategórískt að hafna öllum hugmyndum af hinum væng stjórnmálanna, jafnvel þótt þær í sjálfu sér séu ekki svo slæmar.

*

Talandi um að mætast á miðri leið; ég sé að Eiríkur Rögnvaldsson, illa vinstri grænn sögulega séð, talar gegn vopnasendingum til Úkraínu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talar gegn vopnasendingum til Úkraínu. Þar lýkur líklega sammálalistanum þeirra; en þetta eru aukaatriði.

Framan af var það stefna íslenskra stjórnvalda að styðja ekki Úkraínumenn í baráttu þeirra við Rússa með því að kaupa vopn; í staðinn hefur verið farin sú leið að veita mannúðaraðstoð, senda lopapeysur, kaupa bíla. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og í orði kveðnu andstæðingur Atlantshafsbandalagsins hefur þannig getað sagt sér að hún sé ekki beint að fjármagna stríðsrekstur, þótt varnarstríð sé – en nú hefur þetta breyst. Tilkynnt var um það í látlausri færslu á vef Stjórnarráðsins í upphafi viku að Ísland hygðist nú styðja kaup á skotfærum fyrir Úkraínumenn með sérstöku framlagi upp á 300 milljónir krónai. Í sömu grein er kostuleg klausa: „Þá mun Ísland styðja innkaup á búnaði fyrir konur í úkraínska hernum. Hlutfall kvenna í hernum hefur vaxið mjög á síðustu árum, sérstaklega eftir að innrás Rússa hófst. Til að koma til móts við þarfir kvenkyns hermanna er lagt upp með að útvega einkennisföt, skotheld vesti, læknis- og hreinlætisvörur fyrir 75 milljónir króna.“

Hljómar smá eins og það sé svolítið flott að nú séu konur líka að berjast til dauða í Úkraínu – þegar karlar á herskyldualdri verða sífellt færri – nú eru konurnar að koma að borðinu og Ísland ætlar að styðja það. Feminísk. Já, margir spyrja sig núna hvenær sú ákvörðun var tekin að fara að kaupa vopn þrátt fyrir fyrri stefnu? Enginn veit. Stríð byrja, þau dragast á langinn og þau verða sífellt óskiljanlegri. Tvö ár búin. Bandaríska leyniþjónustan segir að 70.000 úkraínskir hermenn séu látnir og úkraínsk stjórnvöld segja að um 80.000 rússneskir hermenn séu fallnir – allar hliðar ýkja eða draga úr eftir hagsmunum hverju sinni – en hundruð þúsunda eru látin og fleiri drepast á hverjum degi. Það er staðan – margir segja að Íslendingar ættu frekar að beita sér fyrir friði á þessu stigi en kaupum á skotfærum; en hver veit hvernig í ósköpunum er hægt að stuðla að friði í Úkraínu. Á móti er sagt að eina leiðin til að ljúka stríðinu sé að Pútín hörfi. Hann virðist ekki ætla að gera það – Úkraína er samt aldrei að fara að vinna stríðið – þannig að svona verður þetta greinilega áfram. Um ókomna tíð.

*

Næst á dagskrá: Ný gögn úr íslenska skólakerfinu – úr kynfræðslu! Nú er verið að kenna börnum nýtt tungutak rétttrúnaðarins.

Við fjölluðum hér í seinasta þætti nokkuð um kynjafræðikennslu við menntastofnanir landsins og þar vísuðum við einkum til kynjafræði sem valfags við framhaldsskóla landsins, sem er víða boðið upp á. Annað og stærra mál er það hvað yngri börnum er kennt – sem þau velja ekki, heldur er hluti af námsframboði í unglingadeildum grunnskóla landsins.

Fréttir vikunnar hafa undir höndum gögn úr ónefndum grunnskóla í Reykjavík, þar sem verið er að kenna börnum allt það nýjasta í kynjafræði og kynfræðslufræðunum, sem hefur svo sem komið til opinberrar umræðu áður. Mörgum finnst óeðlilegt hve langt er gengið í kynfræðslu í grunnskólum og sitt sýnist hverjum í þeirri umræðu.

Það sem vakti þó athygli ritstjórans í glærupakka sem ég hef fengið aðgang að er verkefni sem er lagt fyrir níundubekkinga í heftinu “Alls-kynfræðsla”; þar sem einn liður í verkefnaheftinu ber yfirskriftina “Kynusli tungunnar.” -  “Nú færð þú þrjú stutt ritunarverkefni. Fylgdu fyrirmælum kennara nákvæmlega.” Eitt verkefnanna felst í að breyta starfstitlum eins og vísindamaður og alþingismaður í starfstitla “fyrir öll kyn” - þetta hefur lengi verið sport hjá femínístum og ekkert nýtt þar – en annað verkefni í heftinu gengur enn þá lengra. Það er það fréttnæma í þessu. 

Í því verkefni eru gefnar fimm mjög eðlilegar íslenskrar málsgreinar og þar segir: ”Getur þú skrifað þessar málsgreinar upp á nýtt þannig að þær virki fyrir öll kyn?” Málsgreinarnar eru eftirfarandi: “Allir tapa á verðbólgunni.” Þarna vill kennarinn væntanlega fá “Öll tapa á verðbólgunni” – sem er í anda handstýrðra málbreytinga sem Ríkisútvarpið, vinstri grænir að hluta til og umtalsverður hluti ákveðinnar ráðandi mennta- og menningarelítu hafa kappkostað að þvinga í gegn hjá íslensku þjóðinni á undanförnum árum – öll tapa á verðbólgunni í stað allir tapa á verðbólgunni, málfar sem engum Íslendingi er tamt að nota en pólitískur þrýstingur fær ólíklegasta fólk til að tileinka sér - á yfirborðinu, í rituðu máli - varla nokkur maður nær tökum á þessu í töluðu máli dagsdaglega. Fleiri setningar sem grunnskólinn leggur fyrir: “Allir þurfa að fara í skimun” – “fyrir öll kyn” væri það: Öll þurfa að fara í skimun. “Mönnum er skipað að fara í sóttkví” - ætli það eigi ekki að vera fólki er skipað að fara í sóttkví. “Ýmsir eru ósammála sumum” - þarna fer maður strax að finna einmitt hvað nýja kynjamálið er ónáttúrulegt og illa nothæft - ýmis eru sammála sumum í stað ýmsir? Frábært - falleg íslenska. Og þetta kemur enn betur í ljós í næsta dæmi: Skrifaðu þessa setningu upp á nýtt fyrir öll kyn: “Enginn má yfirgefa húsið.” Enginn má yfirgefa húsið – á það að vera: Ekkert má yfirgefa húsið? Eða Engin mega yfirgefa húsið - í hvorugkyni fleirtölu? Bæði mjög óeðlileg íslenska - vegna þess að á ég að segja þér hvaða útgáfa setningarinnar er nú þegar kynhlutlaus? Enginn má yfirgefa húsið. Í hlutlausu málfræðilegu karlkyni með tveimur n-um. Enginn má yfirgefa húsið. Alveg sama af hvaða kyni – þetta vísar ekki til kyns. Enginn má yfirgefa húsið – svoleiðis hefur þetta alltaf verið sagt og í þessu er ekki fólgin nein kynjuð merking. Enginn. Kynhlutlaust. Þú getur hins vegar ákveðið að enginn (af því að svo vill til að karlkynið er notað sem hlutlausa kynið) sé sérstaklega “kynjað”. Sama með “Allir tapa á verðbólgunni” - það er kynhlutlaust. Það hafa alltaf allir skilið þetta þannig – en á einhverjum tímapunkti var tekin ákvörðun um að það væri kynjað og því þyrfti að nota hið mjög svo óeðlilega hvorugkyn í þessu tilfelli.

Þegar maður gagnrýnir þetta málfar og segir undarlegt að ríkisútvarpið eða aðrar mikilvægar menningarstofnanir séu að reyna að keyra þessar breytingar í gegn, er oft sagt: Það er enginn neyddur til að nota þetta kynhlutlausa mál. Þetta er frjálst val. “Þau sem vilja geta talað svona og önnur ekki.” Þetta er ekki rétt. Hér er komið dæmi úr íslensku menntakerfi úr opinberum skóla í Reykjavík þar sem þetta er sannarlega ekki val. Nemendum er falið með skýrum leiðbeiningum að endurskrifa eðlilegar íslenskar málsgreinar yfir í nýtt tungutak í anda breytts pólitísks rétttrúnaðar. Þrýstingurinn sem verkar á fólk til að breyta máli sínu úr því máli sem það ólst upp við hefur hingað til yfirleitt ekki birst okkur sem beinar skýrar skipanir, heldur mun frekar sem mjúkt vald, þar sem ríkisútvarpið útvarpar hinu rétta nýja máli og þegnarnir eiga að taka við sér hægt og rólega. Nú sjáum við þetta hins í formi beinna skipana og það til mjög ungs fólks sem auðvitað hlýðir kennaranum, ekki síst þegar þetta er sett fram undir þeim formerkjum að aðeins svona virki tungumálið “fyrir öll kyn”. Hver ætlar að setja sig upp á móti “öllum kynjum” án töluverðra félagslegra afleiðinga? Já, að mínu mati er það stórkostlega varasamt þegar kennslustofan verður að vettvangi hápólitískra handstýrðra samfélagsbreytinga, sem mönnum er auðvitað frjálst að reyna að koma til leiðar úti í samfélagi - það er bara ekki verið að kalla eftir því þegar þegar þeim er falið að mennta börn annarra í sögu, stærðfræði, líffræði, málfræði og öðru eins. Hvað eiga foreldrar annars að gera, sem fallast ekki á að breyta tungumáli sínu eða barna sinna í þágu áherslna Vinstri grænna? Segja börnunum að óhlýðnast kennaranum? Eða… bara horfa í gaupnir sér og þegja. Líklega fara flestir þá leið.

Maður rennir eiginlega hýru auga til Þýskalands, það eru fréttir þaðan, forsætisráðherrann í Bæjaralandi, Markus Söder, hefur gripið til þess ráðs að banna kynjamál hjá opinberum stofnunum og í skólum í sambandslandinu. Skilaboðin eru skýr í Bæjaralandi: Kynjamál í opinberri starfsemi er óheimilt og enn fremur er bannað að refsa starfsfólki eða nemendum fyrir að nota kynjamál ekki, að gefnu tilefni – farið er að bera á slíku í Þýskalandi. Og það verður vafalítið þróunin hér heima – og það virðist vera byrjað, samkvæmt þessum upplýsingum úr grunnskóla í Reykjavík. Eins og segir í Alls-kyn-fræðsluheftinu – skrifaðu málsgreinarnar upp á nýtt, níundubekkingur – fylgdu fyrirmælum kennara nákvæmlega.

*

Yfir í annað. Ótrúlega upplýsandi grein birtist í fjölmiðlinum Hluthafanum í vikunni, þar sem Þorsteinn Friðrik Halldórsson er ritstjóri. Greinin fjallar um gífurlega flókna fjárhagsstöðu sveitarfélaga á Íslandi – og ef þú heyrir það og hugsar: Æ, bla, bla, bla alltaf sami söngur – þá bið ég þig að staldra við. Fjárhagsstaða íslenskra sveitarfélaga er í alvöru stórkostlega alvarleg. Haraldur Líndal Haraldsson, sem hefur áratugareynslu af ráðgjöf við sveitarfélög um fjármál og var bæjar- og sveitarstjóri sjálfur, segir í samtali við hluthafann að fyrir 10 til 15 árum hafi rekstrarmódel sveitarfélaga virkað ágætlega - en að svo miklar breytingar hafi orðið á samfélaginu og lagaumhverfinu að þetta sé hætt að virka. Dæmið er raunverulega bara eins og maður sér á þessari grein hætt að ganga upp; álagið vegna öldrunarþjónustu, málefna fatlaðra og leik- og grunnskólakerfisins sé bara hreinlega að fara að vera óviðráðanlegt að óbreyttu. Haraldur nefnir líka launakostnað starfsfólksins – að í þeim launahækkunum sem hafi orðið á undanförnum árum hafi mikið farið til launalægri hópa sem eru einmitt stórir hópar hjá sveitarfélögum; við þetta bætist stytting vinnuvikunnar; Haraldur segir, bein tilvitnun:  „Miðað við þessar breytingar bætast um 20 frídagar á ári vegna styttingar vinnuvikunnar ofan á þessa 30 frídaga vegna sumarleyfa, eða samtals 50 frídagar á ári. Svo erum við að sjá í úttektum okkar að veikindi eru að aukast en dæmi eru um að hver starfsmaður taki að meðaltali 30 veikindadaga á ári sem bætast þá við þessa 50 frídaga í ákveðnum starfsgreinum. Ég veit ekki hvort það sé vegna þess að heilsufar þjóðarinnar sé svona slæmt, eða vegna þess að þetta sé menning sem viðgengst.“

Það er alveg sama hversu hlynntur maður er rétti verkafólks til veikindadaga – 30 veikindadagar á ári. Að meðaltali. Einhverjir með fleiri daga. Það getur ekki verið að þetta séu allt veikindi – þetta er menning. Litið er á þessa veikindadaga sem frídaga. Mæli með lestri þessarar greinar á hluthafinn punktur is. Eiginlega hræðilegt; maður sér bara að dæmið er raunverulega hætt að ganga upp. Einhvern daginn kemur að skuldadögum. Þá verðum það við og börnin okkar sem borgum.

*

Annað. Hér hefur nokkuð verið fjallað um hina miklu almennu hægrisveiflu sem hefur orðið á undanförnum örfáum árum; þar sem fólk sem áður var heldur til vinstri staðsetur sig nú heldur til hægri. Síðan er umdeilt hvort færðist; fólkið eða ásinn sem það er á; það er að segja toguðu vinstrimenn vinstrið til vinstri og skildu hófsama vinstrimenn eftir á hægrivængnum eða voru það hinir sem færðust til hægri. Allavega. Okkur datt í hug í þessum þætti að sigur stúdentahreyfingarinnar Vöku í Háskóla Íslands á dögunum – fyrsti sigur Vöku á Röskvu í sjö ár – væri enn ein birtingarmynd hægrisveiflunnar. En Júlíus Viggó  Ólafsson formaður Heimdallar og oddviti Vöku í félagsvísindadeild háskólans segir í samtali við ritstjórann að þetta sé ekki endilega til marks um slíka sveiflu… Hann skrifar:  Síðustu tvö ár hefur öflugur hópur ungs fólks unnið markvisst að því að byggja upp starfsemi félagsins frá algjörum botni. Vaka vann vegna þess að þetta fólk vann vinnuna. Ef til vill er einhver tíðarandaelement í þessu. Fólk er held ég yfir höfuð komið með nóg af þeim háfleygu hugmyndum sem Röskva hefur staðið fyrir. Held að það hafi verið ferskur andblær að fá að velja praktískar hugmyndir, ekkert rugl. En ég vil ekki vera að kalla einhverja hægribylgju of snemma. Ég finn meðvind, en vil ekki prjóna yfir mig. Það getur allt breyst.“ Þetta segir Júlíus Viggó Ólafsson Sjálfstæðismaður – það getur allt breyst segir hann, já það á auðvitað vel við um hið pólitíska andrúmsloft núna – menn finna að það getur alveg eins gerst hratt að blásið verði til kosninga. Flokkarnir eru farnir að verða stressaðir. Er sigur Vöku merki um það sem koma skal?

*

Ýmislegt að gerast í hlaðvörpum ritstjórans þessa dagana. Kjartan Þórisson er ótrúlegur maður. Frumkvöðull. Stofnandi tímabókunarappsins Noona - sem er í miklum vexti með á fimmta tug starfsmanna. Hann var til viðtals hjá ritstjóranum í hlaðvarpinu sem þið getið hlustað á á hlaðvarpsveitum; við ræddum geimverur, ég ræði aldrei geimverur, en þetta er mjög áhugavert. Kjartan er greinilega oft að lesa vísindaskáldskap á milli þess sem hann rekur sitt stönduga fyrirtæki, þannig að hann þekkir kenningarnar. Kjartan brot. Já verra væri að við værum nálægt þessum filter núna. Að tortíma okkur sjálfum með kjarnorkuvopnum. Viðtalið í heild Snorri Másson ritstjóri á hlaðvarpsveitum og YouTube og ritstjori.is - við erum líka að tala um viðskipti, pólitík, frumkvöðlalífið, mæli með.

Annað úr hlaðvarpsveröld ritstjórans. Svo var Gummi Emil í hlaðvarpi mínu Skoðanabræðrum, með frábæra hugvekju um það hvernig skuli gera það sem maður á að gera í lífinu. Brot spilað. Ótrúlegur maður, Guðmundur Emil. Gúglið Skoðanabræður Patreon. Hlaðvarp okkar bræðra.

Gleðilega páska, kæru áhorfendur – munið öflug fyrirtæki, Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Myntkaup; munið ást á ættjörðu og ást á sannleika; og munið upprisu holdsins og eilífs lífs. Ef einhvern tíma, þá núna. Guð blessi ykkur.

0 Comments