Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00

Fréttir vikunnar | Órólega deild Samfylkingarinnar, enskuverðlaun og hættulegar upplýsingar

Verðlaun Byggðastofnunar fyrir stjórnsýslu á ensku, hörð viðbrögð við að gagnrýna þau verðlaun, innflytjendastefnu Samfylkingarinnar, loftslagsmál, stórhættulegar upplýsingar og Prettyboitjokko.

Fréttir vikunnar að þessu sinni fjalla um verðlaun Byggðastofnunar fyrir stjórnsýslu á ensku, hörð viðbrögð við að gagnrýna þau verðlaun, innflytjendastefnu Samfylkingarinnar, loftslagsmál, stórhættulegar upplýsingar og skoðanir Prettyboitjokko á hefðbundnum kynjahlutverkum.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Myntkaup og Þ. Þorgrímsson.


Að neðan eru útlínur þess sem kemur fram í þættinum, en talað orð gildir.

Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra þann 26. apríl 2024 – það er föstudagur og við erum í góðu skapi í þessum vikulega fréttaþætti með einföldu grunngildin; ást á ættjörðu; ást á sannleika. Hvað er ekki að frétta í vikunni; við erum með útlendingamál enn á ný, Samfylkinguna, hressandi ummæli Prettyboitjokko, TikTok - og fleiri veigamikla þætti.

Við erum ekki einn af ríkismiðlunum, fjölmörgu ríkismiðlunum í rauninni – sem flestir reiða sig á skattfé þitt, jafnvel upp á hátt í 100 milljónir króna á ári, sem renna til stærstu miðlanna, að ég tali ekki um Ríkisútvarpið – sem í þokkabót er tiltölulega hugmyndafræðilega drifinn fjölmiðill, á þinn kostnað – upp á fleiri fleiri milljarða á ári. Við hér í þessum fréttaþætti erum á frjálsum markaði og við verðum að taka undir með ritstjóra Spectator um það hlutverk sem við teljum að ríkisvaldið eigi að hafa gagnvart frjálsum fjölmiðlum, áhrifaríkt svar, kíkjum á það. Brot.

Svipaðar pælingar hér, aðskilnaður ríkis og fjölmiðla segir maður – allavega á meðan RÚV er svona leiðinlegur miðill og leggur ekki rækt við grunnskyldur sínar. Talar til dæmis tungumál sem næstum enginn landsmaður talar, kynjamálið. RÚV væri kannski góð pæling ef miðillinn væri að hvetja fólk til dáða, að hvessa andann, eins og maður segir. En það gerir það ekki. Annað mál eru síðan batterí eins og Fjölmiðlanefnd, sem við ætlum þó ekki að fara út í hér – þótt ég gæti eins og Kató gamli forðum ákveðið að ljúka hverjum þætti hér með því að segja: Auk þess legg ég til að Fjölmiðlanefnd verði lögð niður. 

Við erum á einkamarkaði – í samstarfi við öflug fyrirtæki. Þ. Þorgrímsson, Reykjavík Foto og Myntkaup.

*

Semsagt. Við erum með þétta dagskrá í dag. Ritstjórinn gerði sér lítið fyrir og birti grein í vikunni þar sem ég gagnrýndi nokkuð harðlega þá undarlegu ákvörðun Byggðastofunnar, að verðlauna sveitarfélagið Mýrdalshrepp með sérstökum hvatningarverðlaunum fyrir að koma á laggirnar pólitísku enskumælandi ráði. Ég sagði sporin hræða – það er ekki verðlaunaefni að sveitarfélög þar sem 60% íbúa eru útlenskir neyðist til að færa hluta stjórnsýslunnar yfir á ensku, það er áhyggjuefni - þótt vitaskuld sé þetta í einhverjum útreikningum á einhverju stigi skiljanlegt skref, hugsunin er skiljanleg - þótt ég sé ekki sammála henni. Í öllu falli er þetta ekki verðlaunaefni, eins og ég segi: Ég benti á að það sé nokkuð kostulegt að Byggðastofnun sjálf telji byggðastefnu í Mýrdalshreppi til fyrirmyndar – þar sem sveitarfélagið reiðir sig á eina atvinnugrein, útlendingar eru í meirihluta og ekki er lengur vinnandi vegur að reka samfélagið á íslensku – sem er þó enn opinbert mál í landinu. Á þessu svæði er enska orðið meirihlutamálið í einhverjum skilningi – og ekki alvöru enska, því enska er sjaldnast móðurmálið; þetta er vanefnaenska. 

Hverjum er þróunin að kenna? Ég þori ekkert að fullyrða um það – og ég lít svo á að maður geti ekki bent með góðu móti á einn sökudólg, hvorki útlendinga sem eru latir að læra íslensku, þótt sumir séu það; aðrir hafa raunverulega virkilega takmarkað færi á því og þá tel ég það mjög brýnt að bæta úr því og hef lengi talað fyrir því, mjög lengi; né þó tel ég þetta vera alfarið heimamönnum að kenna, að vera ekki nógu duglegir að ábyrgjast íslenskunám aðfluttra, þetta er ekki aðeins ábyrgð hinna vondu og þröngsýnu heimamanna eins og sumir vilja vera láta. Um leið er þróunin hluti af stærri efnahagslegum spurningum um íslenska hagkerfið, við erum sífellt fleiri, þá þurfum við sífellt fleiri, það er víst eitthvað náttúrulögmál, og þá þurfum við að flytja inn fólk mun hraðar en við höfum ráðið við að sinna vel. Þetta eru allt augljósir hlutir sem við höfum margoft farið yfir í þessum þætti – en að ég skuli hafa vogað mér að gagnrýna Byggðastofnun fyrir þessa verðlaunaafhendingu - það fer greinilega út fyrir öll mörk hjá sumum. Þarna kynntumst við skautun. Netverjar leyfðu sér að ausa svoleiðis ótrúlegum svívirðingum yfir ritstjórann fyrir að vekja máls á þessari vafasömu þróun og þessari sífellt viðkvæmari stöðu íslenskunnar; við getum tekið tvö sýnishorn, annað er frá kjörnum fulltrúa, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar Sabine Leskopf, sem fer með þau ósannindi að í minni umfjöllun felist það, að ég sé að „gera lítið úr fólki sem talar ekki íslensku einfaldlega vegna þess að það býr í þannig aðstæðum“ – eins og það sé á einhvern hátt það sem ég er að gera með því að benda á að það sé vafasamt skref að skipta yfir á ensku í stjórnsýslu landsins? Annar dyggur Samfylkingarmaður, Gunnar Hörður Garðarsson, sem þar til fyrir skemmstu starfaði sem upplýsingafulltrúi hjá ríkislögreglustjóra en er nú á framfæri okkar skattgreiðenda í Brussel, gengur lengra en Sabine Leskopf í athugasemd og segir um skrif mín: “Grímulaus rasismi.” Já, það eru fréttir – grímulaus rasismi. Hvernig bregst maður við svona rógi? Jæja.

Það vill svo til að báðir þessir gagnrýnendur ritstjórans standa í ströngu innan eigin flokks við að benda á einmitt svipaðan grímulausan rasisma nýrrar flokksforystu í Samfylkingunni, sem hefur lagt upp með eilítið íhaldssamari stefnu í útlendingamálum. Sumir vilja ekki heyra á slíka breytingu minnst, þannig að nú gengur barátta einhverrar órólegrar deildar innan flokksins út á að fá einhver tískuorð umburðarlyndisfræðanna samþykkt inn í ályktanir hér og þar. Þetta snýst þó, eins og ég segi, í rauninni eiginlega allt um orð, mannúð, fjölbreytileika, fjölmenningu, inngildingu. Orðin hljóma vel - en Kristrún Frostadóttir segir eins og Sigfús Daðason skáld: “Orð, ég segi alltaf færri og færri orð, enda hafði ég lengi á þeim illan bifur. Tign mannsins segja þeir þó þeir geri sér ekki ljóst að orð eru dýr né með hverju þeir geti borgað.” Þetta er Sigfús Daðason. Samfylkingin hefur mælst með meira en 30% fylgi eftir að þessar breytingar voru gerðar á stefnunni. En hvaða íhaldssama stefna er þetta hjá Samfylkingunni, hvað felur hún í sér, hvað býr handan orðanna? Ég hef verið að blaða í merku riti breska hagfræðingsins Paul Collier, “Exodus: How Migration is Changing The World” – bók sem ritstjórinn hefur áreiðanlegar upplýsingar um að hafi gengið manna á milli í nýrri forystu Samfylkingarinnar. Collier hefur líka talað á viðburðum hjá danska jafnaðarmannaflokknum og virðist hafa einhver tengsl við Mette Frederiksen. Paul Collier fjallar um fólksflutninga út frá ýmsum áhugaverðum sjónarhornum og ekki aðeins þessari einföldu niðursoðnu mynd; við á Vesturlöndum erum ríkt fólk og gott fólk; ergo við ættum að hafa opin landamæri fyrir öllum. Þetta er ekki óútbreidd sýn en hún gengur augljóslega ekki upp og kemur okkur ekki langt. Collier fjallar, þvert á móti, af mikilli virðingu um þau flóknu og ófyrirséðu áhrif of mikilla og of hraðra fólksflutninga getur haft á samfélög í sambandi við álag á innviði, félagslega samheldni, félagslegt undirboð á vinnumarkaði og ótalmarga aðra þætti. 

Collier nefnir um leið hitt, að það er ekki endilega besta aðstoð eða syndaaflausn sem Vesturlönd geta gert, að taka framagjarnt fólk með framtíðarsýn úr þessum fátæku samfélögum, skilja þau eftir manni fátækari en taka innflytjandann í sína þjónustu. Ekki er galið að horfa frekar til Noregs í því efni, segir Collier, sem skilgreinir að hans sögn frekar nokkuð þröngt hvernig innflutningi er háttað, en gefur í staðinn þeim mun meira til þróunarmála.

Það er ekki launungarmál að forysta Samfylkingarinnar horfir til þess hvernig danski jafnaðarmannaflokkurinn hefur haldið á málum og í grein sem Collier skrifaði árið 2019 um það hvernig ríkisstjórn Mette Frederiksen hreinlega endurvakti hina evrópsku sósíaldemókratastefnu segir: 

Í samræmi við megináherslu Mette Frederiksen á að hverfa aftur í kjarna flokksins með því að taka til umræðu áhyggjur vinnandi fólks, hefur hún veitt því sérstaka athygli hvernig er best að standa að aðlögun innfluttra. Allir nýir borgarar þurfa að sýna kerfinu hollustu, sem gengur út á gagnverkandi skuldbingar og gagnkvæma tillitsemi, sem eru grundvöllur hins félagslega kraftaverks í Danmörku. Að þeir geri þetta er forsenda þess að innflutningur fólks úr öðrum menningarheimum geti verið sjálfbær. Að innflytjendur gangist inn á einhvers konar sameiginlega þjóðarsjálfsmynd á nýja staðnum þýðir ekki að þeir þurfi að láta önnur sérkenni sín lönd og leið. En aðild þeirra þarf þó að vera nægilega afgerandi til þess að það fari ekki á milli mála að þeir hafi tileinkað sér nýja sjálfsmynd, hinn sameiginlega tilgang og þær skyldur sem því öllu fylgja.

Þetta skrifar Paul Collier, höfundur bókarinnar Exodus – sem ég mæli með að kíkja á, er að vísu ekki kominn langt og get ekki vottað fyrir allt efni bókarinnar - en engu að síður. Það er auðvitað síðan líka hægt að lesa hana ekki - og velta þessum málum hreinlega ekkert frekar fyrir sér - það er hægt að halda því fram áfram að það séu engin mörk fyrir fjölda innflytjenda í svo lítið samfélag og neita að horfast í augu við mikil úrlausnarefni sem blasa þegar við. Öruggasta leiðin mögulega – að segja ekki neitt, annars geta menn verið kallaðir grímulausir rasistar af búrókrötum í Brussel, sem þeir borga þó launin hjá. Jæja.

*

Við förum yfir í annað. Loftslagsmálin. Það gladdi ritstjórann að sjá mynd sem Þórarinn Hjartarson hlaðvarpsmaður birti á X í vikunni af matarspori á Landspítalanum. Hvað er matarspor? Jú það er útreikningur verkfræðistofunnar Eflu á áætluðu kolefnisfótspori þeirrar máltíðar sem þú velur þér í mötuneytinu. Verst er lasagna með kjöti, það er eins og að keyra átta kílómetra, næst er grænmetislasagna, það eru fjórir kílómetrar og best fyrir umhverfið er gulróta- og engifersúpa - það eru aðeins tveir kílómetrar. Maður spyr sig: Af hverju var ekki boðið upp á skordýr í matinn, eins og að keyra einn kílómetra. Eat ze bugs - höfum nefnt það áður hér í þessum þætti - samsæriskenning sem við aðhyllumst að endanlegt markmið sé að fæða okkar samanstandi af skordýrum. Sömuleiðis hefði verið hægt að sýna núll kílómetra kostinn - að borða ekki neitt og keyra ekki neitt. Það væri auðvitað ábyrgast gagnvart umhverfinu og í rauninni væri enn ábyrgara að vera einfaldlega ekki til. En því miður hafa ekki öll kost á því að láta af tilvist. Það eru loftslagsmálin - þótt Efla sé enn með góða samninga við Landspítalann verður því ekki neitað að sífellt er minna rætt um loftslagsmálin nú þegar ástandið er orðið krítískt í til dæmis stríðsátökum víða um heim – og til marks um breyttar áherslur hefur til dæmis Greta Thunberg, sem berst mjög fyrir rétti Palestínumanna og Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir vinstriaktívisti bendir á á Twitter, sem er rétt - allt í einu er Greta Thunberg ekki lengur stjarna meginstraumspressunnar, ekki ólíklega vegna þeirra sjónarmiða - en til marks um breyttar áherslur hefur Greta Thunberg einmitt sagt að það sé ekki til neitt til sem heitir loftslagsréttlæti (hvað sem það þýðir, climate justice) á herteknu landi, ekkert loftslagsréttlæti á herteknu landi. Loftslagsmálin eru að færast neðar á áhyggjulistum fólks (ekki að þróunin, hnattræn hlýnun, ef hún er að eiga sér stað, sem hún virðist vera að gera - hafi skánað - en umræðan, og áhyggjurnar hafa minnkað; fólk er með hugann við annað). Hjá World Economic Forum sem við auðvitað sem samsæriskenningasmiðir fjöllum alltaf um annað veifið eru loftslagsmálin ekki lengur áhyggjuefni númer eitt; haft er eftir Saadia Zahidi framkvæmdastjóra World Economic Forum að samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu séu upplýsingaóreiða og falsfréttir helsta áhættan sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir á næstu tveimur árum, næst á listanum eru veðurfarslegar katastrófur, félagsleg skautun og svo vopnuð átök. Upplýsingaóreiða og falsfréttir eru stærsta áhættan sem mannkynið stendur frammi fyrir – hljómar eins og eitthvað sem einhver myndi tromma upp með – ef hann ætlaði svo að tilkynna í kjölfarið aðgerðir, þar sem hann næði betri stjórn á upplýsingum sem berast almenningi – og þá væri hann búinn að réttlæta þá ritskoðun og þar með harðstjórn – með því að sannfæra almenning um hina stórhættulegu upplýsingaóreiðu. Þetta er tilhneigingin hjá mörgum vestrænum stjórnvöldum, að færa borgara sína aftur inn í lokuð áróðurskerfi eins og við lifðum við á 20. öld - og við hvetjum til varúðar gagnvart þessum hugtökum. (Bandaríkjaþing vel að merkja að samþykka TikTok-bann - mjög umdeild aðgerð, 170 milljón notendur - þarf annaðhvort að hætta starfsemi í Bandaríkjunum eða vera selt til bandarísks fyrirtækis - sumir óttast að á sömu forsendum fari stjórnvöld líka á eftir öðrum samfélagsmiðlum, ég segi samt: Ef Kínverjar leyfa ekki bandarísk öpp í Kína, ættu Bandaríkjamenn ekki endilega að leyfa kínversk öpp í Bandaríkjunum. Stórar spurningar).

*

Prettyboitjokko. Patrik Snær Atlason er Prettyboitjokko og hann sest í ráðuneyti Skoðanabræðra þessa vikuna, sem er hlaðvarp sem ritstjórinn heldur úti ásamt bróður sínum. Það er meira í manninn spunnið en bara glimmer og peningar, hann hefur ákveðnar hugsjónir og hugmyndir sem vert er að laða fram í dagsljósið. Persónuleg krísa hans sem fótboltamanns og fyllibyttu, eitrað umhverfi, að finna sjálfan sig á ný, fjárfestingar, peningamál til framtíðar, hugsjónin um að funda með Jóni Ásgeiri, Porsche-inn, drykkjan í Covid, hefðbundin kynjahlutverk, að svara símtölum frá gaurum sem þú vilt ekki hitta í húsasundi og svo framvegis og svo framvegis. Svo er það gagnrýnin; eitt kvót: „Ég hitti Egil Helgason í Kringlunni og hann horfir ekki einu sinni á mig. Gaur, þú átt ekkert í þetta.“ Þetta segir Patrik. En fáum brot þar sem rætt er um, já, hin hefðbundnu og hin nýju kynjahlutverk, Prettyboi liggur ekki á sinni skoðun. Brot úr Skoðanabræðrum.

Svo mörg voru þau orð – vinna. Vinnan göfgar manninn – og auðvitað er það í einhverjum skilningi í þarfahring flestra að vinna formlega vinnu – en kannski er það byggt á misskilningi. Mjög forvitnilegt hvernig tækniframfarir verða sífellt meiri, en lífsbaráttan á ýmsum sviðum sífellt þyngri. Hvers vegna? Eru stjórnvöld að rýra lífsgæði okkar einhvern veginn, en ljúga því að þau séu að tryggja öryggi okkar með öllum þessum stóru kerfum? Seðlabankarnir – þeir eru alltaf að þynna út peningana okkar með því að prenta út meira fyrir stjórnvöld. Eins og ég skil þetta. Það er umhugsunarefni inn í vikuna, kæru hlustendur, áhorfendur, lesendur. Ritstjórinn er í samstarfi við Myntkaup, Þ. Þorgrímsson og Reykjavík Foto. Þið munuð kjörorð þessa fréttaþáttar; sem gæti hjálpað að hafa sömuleiðis hugföst í öllum ykkar daglegu athöfnum næstu vikuna; þau eru ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér næsta föstudag - í millitíðinni, Guð blessi ykkur.

0 Comments