Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00
Transcript

Fréttir vikunnar | Réttlát reiði Jóns Gnarr, bestu gjaldmiðlarnir og árásir á fundafrelsið

Fréttir vikunnar: Fjármálaáætlun, eyðslusemi stjórnvalda, betri gjaldmiðlar, niðurstaða MDE, ráðstefna bönnuð í Brussel, Ólympíuleikar án lyfjaprófa og Katrín vs. Jón Gnarr.

Ég elska þetta, vil meira og styðja

Ritstjórinn er dauðslifandi feginn að vera kominn aftur í myndver til áhorfenda sinna og flytur þéttan, þykkan og langan fréttapakka að þessu sinni, þar sem farið er yfir „þjóðarhöll“ í fjármálaáætlun og henni att saman við íslenska tungu, Bitcoin-helmingun er tekin fyrir og ummæli bardagakappa um austurríska hagfræði, niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir, ráðstefnu National Conservatism í Brussel, Ólympíuleika án lyfjaprófa og loks deilur á milli Drake og Rick Ross.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Þ. Þorgrímsson, Reykjavík Foto og Myntkaup.


Að neðan er önnur birtingarmynd þess efnis sem hér ber fyrir augu, nefnilega í textabrotum sem umfjöllunin er grundvölluð á. Talað orð gildir.

Fréttir vikunnar – er fréttaþáttur, með einföld grunngildi, ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við erum á frjálsum markaði – við reiðum okkur ekki á rekstrarfé úr ríkissjóði eins og flestir aðrir miðlar sem koma ykkur fyrir sjónir dagsdaglega – við erum stoltir af því að vera í samstarfi við öflug íslensk fyrirtæki. Þau talin upp.

Hvað um það. Það er ótalmargt að frétta – efnahagsmálin almennt, getum byrjað þar.

Til stendur að reka ríkissjóð Íslendinga áfram með töluverðum halla þrátt fyrir verulega skuldasöfnun á síðustu árum – fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, var að kynna fjármálaáætlun í þessari viku og þar eru ekki hugmyndir um niðurskurð í opinbera kerfinu. Útgjaldavöxturinn heldur öllu heldur áfram á næstu árum. Við minnum ávallt á í þessum fréttaþætti að þetta þarf allt saman að borga þótt síðar verði – það verðum við í framtíðinni með sífellt hærri sköttum – sífellt fleiri íþyngjandi gjöldum. Sumir flokkar telja nauðsynlegt að hækka skatta þegar í stað, eins og Samfylkingin undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, sem nefndi hærra auðlindagjald og frekari skattlagningu fjármagnstekna í viðtali við Stöð 2. Ég segi: Guð hjálpi þeim stjórnmálamönnum sem sjá ástæðu til þess að laga ríkisreksturinn – kerfið mun ekki bregðast vel við – og það verða erfiðar ákvarðanir, sem ríkjandi stjórnvöld treysta sér ekki til að taka. Því lengur sem þú frestar því, því verri verður vandinn. Síðan er önnur spurning í hvað allur peningurinn fer; ,maður kvartar auðvitað undan útgjaldaaukningu en síðan kallar maður eftir útgjaldaaukningu á sviðum sem eru manni hugleikin. Þið afsakið þetta. En ef ríkisvaldið á að reyna að gera eitthvað, þá þetta. Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur bendir í færslu á að ekkert aukið fjármagn virðist í þessari nýju fjármálaáætlun ætlað málaflokki sem við höfum fjallað töluvert um hér í þessum þætti, sem er íslenskukennsla fyrir útlendinga. Stefna stjórnvalda er því óbreytt, að festa ensku í sessi sem tungumál sem verður á endanum jafnrétthátt íslenskunni í íslensku samfélagi, eins og hefur verið að gerast hægt og rólega á undanförnum árum. Á sama tíma nefnir Eiríkur að átta milljarðar króna séu ætlaðir svonefndri Þjóðarhöll fyrir íþróttir – það er forgangsröðunin. Ekki það –samanburður sem þessi er auðvitað ekki alltaf sanngjarn, en punkturinn er þessi: Íslensk stjórnvöld segjast vera að huga að íslenskri tungu, en eru ekki að gera það í alvörunni. Þau ættu í raun og veru að vera að fara á taugum, ef þau myndu átta sig á ábyrgð sinni – en í staðinn eru þau með hugann við annað - nýja ráðherrastóla, lyklaskipti. Í millitíðinni mun ástandið að óbreyttu halda áfram að versna, þar til íslenska hættir að meika sens, eins og þá verður sagt.

*

Annað. Í efnahagsfréttum erlendis, í víðara samhengi: Myndbrot af brasilíska bardagakappanum Renato Moicano eftir að hafa unnið bardaga í UFC nýlega hefur vakið nokkra athygli, hans fyrstu viðbrögð og hans fyrstu hugsanir eftir bardagann voru nokkuð svona hugmyndafræðilegri og pólitískari en gengur og gerist; kíkjum á þetta. Brot.

Manni dettur helst í hug fyrst að þetta sé deepfake. En nei þetta er alvöru. Lestu Ludwig von Mises og veltu fyrir þér sex boðorðum austurríska hagfræðiskólans. Virðist óljóst hvaða sex boðorð þetta eiga að vera nákvæmlega en við getum svona soðið austurríska hagfræði niður í svona grundvallarandstöðu við inngrip ríkisvaldsins í markaði – meðal annars með miðstýrðum seðlabönkum sem stjórna peningamagni í umferð og búa til verðbólgu – með þessari miðstýringu telja menn í þessum hagfræðiskóla að neytendum og samfélaginu sé unnið töluvert tjón, frekar en gagn. Ritstjórinn verður að segja að í seinni tíð er hann alls ekki fráhverfur hagfræðikenningum af þessum toga – það virðist allavega ekki hljóma galið að það væri æskilegra ef gjaldmiðillinn sem menn notuðu til viðskipta sín á milli og til að geyma verðmæti myndi ekki rýrna svona mikið vegna stanslausrar peningaprentunar. Það hljómar allavega vel. Sumir telja að sá gjaldmiðill geti verið Bitcoin - vegna framúrstefnulegrar hönnunar þeirrar rafmyntar, getu hennar til þess að geyma verðmæti án þess að þau rýrni stöðugt.

Þórður Pálsson viðskiptafræðingur, áður bankamaður en nú fjárfestingastjóri hjá Sjóvá, sem hefur töluverða þekkingu á efnahagsmálum, áberandi álitsgjafi í samfélaginu – er ekki sannfærður um Bitcoin – þrátt fyrir að hafa töluverðar áhyggjur af umframeyðslu stjórnvalda. Í færslu á X fjallar Þórður um að hann telji ekki að peningur eigi að geyma verðmæti heldur einkum vera notaður til viðskipta. Þórður skrifar: „Peningur er hins vegar ekki sparnaður enda óvaxtaberandi eign. Sparnaður ávaxtast ekki öðruvísi en með áhættutöku það er þátttöku í verðmætasköpun. Og það er grundvöllur framþróunar og verðmætasköpunar í hagkerfinu að sparnaði er veitt í arðbæra fjárfestingu sem síðan eykur framleiðni og þar með laun í hagkerfinu. Útópía bitcoinera þar sem allir ættu bitcoin í stað þess að taka þátt í verðmætasköpuninni væri kyrrstöðuhagkerfi án framfara sem þýddi auðvitað að hagkerfunum myndi byrja að hnigna.“ Skrifar Þórður. Já – með svipuðum rökum - ef maður ætlaði að fara að taka þátt í rifrildinu á X - væri hægt að segja: Ef það að peningur sé góður sparnaður - góð leið til að geyma verðmæti - ef það þýðir að fólk myndi ekki fjárfesta peningum sínum, væri þá ekki bara best að vera alltaf með óðaverðbólgu svo að við gætum verið viss um að fólk kæmi öllum peningum sínum eins hratt frá sér og það gæti í fjárfestingar hvers konar? Þarna erum við auðvitað að snúa upp á orð Þórðar og ganga lengra með pælinguna, en þetta er samt áhugavert – sumir eru algerlega sannfærðir um að Bitcoin sé leiðin fram á við – lausn sem geti lagað peningakerfið og boðið upp á alvöru gjaldmiðil – og aðrir hafna rafmyntum kategórískt – stundum með góðum rökum – en stundum af því bara. Opna spurningin er: Getur Bitcoin náð slíkum stöðugleika að það sé hægt að nota það sem grundvöll að gjaldmiðli? Það er opin spurning.

Sveiflurnar í Bitcoin eru óneitanlega miklar – þess vegna telja margir myntina ónothæfa sem gjaldmiðil. Í dag er 19. apríl 2024 – þetta er sérstakur tími í sögu Bitcoin og mikið verið að fylgjast með – því að nú er komið að fjórðu helminguninni svokölluðu í sögu rafmyntarinnar (veit ekki hvort þetta sé þegar búið að gerast eða ekki), sem þýðir að nú hægist enn á útgáfu myntarinnar og það verða sífellt til færri einingar af Bitcoin þegar verið er að grafa eftir myntinni. Hvað þýðir þetta? Í grunninn að Bitcoin-einingum fjölgar hægar - sem þýðir einfaldlega minna framboð. Sögulega séð hefur helmingun leitt til þess að virði rafmyntarinnar eykst mjög skömmu síðar – en maður getur aldrei vitað. Það sem er sérstakt núna er að rafmyntin var aðeins fyrir nokkrum vikum að ná hæstu hæðum, kauphallarsjóðirnir hafa gengið mjög vel vestanhafs og svo er verðbólguástand í þjóðargjaldmiðlum víða um heim, sem veldur því að fleiri leita í aðra eignaflokka. Þannig að aðstæður eru flóknar - en eins og segir í greiningu kauphallarinnar Coinbase, er alls ekki víst að allt fari þetta af stað núna vegna helmingunarinnar – það eina sem er víst, segir Coinbase, er að atburðurinn vekur athygli fjölmiðla á helsta kosti Bitcoin, sem er skipulagða, óbreytanlega útgáfuáætlun myntarinnar, sem hefur andstæð áhrif við verðbólgu.

Nóg um rafmyntir að sinni.

*

Áður en við ræðum fullveldi íslensku þjóðarinnar, örstutt hlé!

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að Ísland hafi gerst brotlegt gegn rétti borgara til frjálsra kosninga sem og meginreglu um skilvirk réttarúrræði í þingkosningunum 2021. Þið munið eftir kjörbréfadeilunni; þar sem vafi lék á góðri meðferð atkvæða. Dómurinn hjá MDE snýst ekki um kosningarnar sjálfar eða framkvæmdina, heldur í rauninni aðallega það að þingmenn hafi sjálfir staðfest að þeir hafi verið réttkjörnir. Það segir MDE ekki lýðræðislegt. Þessu er samt stillt svona upp í íslensku stjórnarskránni. Fæstir líta væntanlega svo á að það hafi verið eitthvað bogið við kosningarnar sjálfar á þessum tíma. Ég á reyndar vin sem telur að þetta hafi verið svindl. En enginn heldur það, annar en hann. Virtur maður, ekki það. En sem sagt: Þessi dómur fellur um þetta formsatriði í stjórnarskránni um að á endanum séu það þingmenn sem staðfesta eigin þingsetu. Þeir séu ekki pólitískt hlutlausir. Og eins og alltaf þegar Mannréttindadómstóll Evrópu er annars vegar vaknar umræða um fullveldi þjóðarinnar, að það sé einhvers staðar fólk lengst í burtu sem hafi lögsögu yfir íslenskum málefnum. Það eru fínir punktar – Morgunblaðið skrifar leiðara á þeim nótum, þar segir: „Í þessu íslenska máli – burtséð frá efni máls – gætir því miður enn og aftur eindreg- innar tilhneigingar MDE til að útvíkka hlutverk sitt og valdsvið með því að útvíkka ákvæði sáttmálans án nokkurar lýðræðislegrar, opinberrar umræðu eða viðeigandi umfjöllunar á vettvangi aðildarríkjanna. Á kostnað fullveldis, stjórnskipulegs sjálfstæðis og lýðræðis þjóðanna sem þau byggja.“ Tilvitnun lýkur. Þetta er verðugt umhugsunarefni; þótt hitt sé reyndar líka rétt, að kannski er það ekki galið að skoða það að breyta því að alþingismenn staðfesti kosningu sína sjálfir. 

*

Annað, baráttan um Bessastaði heldur áfram: Jón Gnarr er pirraður út í Katrínu Jakobsdóttur – búinn að vera í haug af fjölmiðlaviðtölum og hlaðvarpsviðtölum að lýsa því – og þetta er nýtt yfirbragð Jóns Gnarr - honum finnst framboð Katrínar furðulegt.

Já - nokkuð mikil óánægja - og svona alvöru pirraður. Maður veit ekki hvernig þessi birtingarmynd Jóns fer í fólk - í svona alvöru pólitísku þrasi.

Jón kvartar undan forskoti: hann sagði hjá Sölva Tryggvasyni: „Ég trúði þessu ekki og hélt fram á síðasta dag að þetta væri della. Ég gaf þessu ekki neinn séns og þetta pirraði mig í raun og veru. Mér finnst þetta bara skrítið í alla staði. Upplifunin mín er að þetta sé eiginlega ekki sanngjarnt.“

Ekki sanngjarnt – Hjörtur Guðmundsson minn gamli kollegi af Morgunblaðinu segir í grein á Vísi að þessi ummæli Jóns séu í raun „afgerandi stuðningsyfirlýsingu“ við Katrínu - enda þýði þau að Katrín standi öðrum frambjóðendum framar – ekki sanngjarnt. 

Margt í þessu – kannski er þetta ekki nógu yfirvegað hjá Jóni að vera svona fúll yfir þessari samkeppni– en það er rétt að Katrín er að stökkva af sökkvandi skipi, úr ríkisstjórn landsins, úr valdamesta embætti landsins fyrir þægilega innivinnu (þótt bla bla bla, þetta sé þýðingarmikið). Það er verðbólga, náttúruhamfarir, stórar spurningar um orkumál, útlendingamál, um þjóðmenninguna, um stríð úti í heimi – það er margt mjög flókið í gangi í pólitík - og margir sem reiða sig á að stjórnvöld séu virkilega með puttann á púlsinum – og Katrín gefst upp? Til að verða að hlutlausu sameiningartákni á Bessastöðum sem getur svifið um í algjöru tómarúmi og barið sér á brjóst í meinlausustu og auðveldustu málaflokkum veraldar, Íslendingar með heimsmet í kynjajafnrétti en við getum gert betur, Íslendingar ætla að verða kolefnishlutlausir en við ættum að stíga stærri skref! Hugrakkt! Já, það er spurning í þessu: Ef Katrín gefst upp á ríkisstjórninni svona auðveldlega þegar það þarf í alvöru að fara að taka erfiðar ákvarðanir, hver segir að hún muni ekki gera það sama á Bessastöðum? Þetta eru opnar spurningar. Ég veit ekki hvort fólk vilji þetta - eða hvort þessi atriði muni hafa áhrif á stöðu Katrínar í þessari baráttu. Skoðanakannanir eru ekki afgerandi stuðningur við Katrínu – líklega minni en menn spáðu. En það er löng barátta fram undan.

*

Yfir í annað og út! Ráðstefna National Conservatism sem halda átti í Brussel í vikunni var stöðvuð af lögreglu að skipan borgarstjóra í Saint Josse hverfi borgarinnar – til þess að sögn að „tryggja öryggi almennings“. Á meðal þeirra sem taka áttu til máls á ráðstefnunni voru heimsþekktir þjóðlegir íhaldsmenn; Nigel Farage frá Bretlandi, Suella Braverman frá sama landi sem þar til fyrir skemmstu var ráðherra þar í ríkisstjórn; Viktor Orban forseti Ungverjalands og Eric Zemmour frá Frakklandi. Flestallt stjórnmálamenn tiltölulega langt til hægri á hinum pólitíska ás – en eins og frjálslyndur borgarstjórinn í Brussel sagði: Róttæka hægrið er ekki velkomið í þessari borg. Ráðstefnan var því stöðvuð af lögreglunni. Allt eðlilegt við það. Margir hafa orðið til þess að fordæma þetta, meira að segja forsætisráðherra í Belgíu, en tilhneigingin er ekki ný af nálinni, heldur er hún vaxandi. Maður hefur þá tilhneigingu að hugarfar ráðandi afla innan Evrópusambandsins sé alls ekki þannig að það sé neitt sérstaklega galið að banna ráðstefnur – sem maður fylgir ekki að málum pólitískt – af því að það er auðvitað alltaf hægt að finna vinkil á að ráðstefnurnar séu í raun „hættulegar“ – eins og alls kyns upplýsingar á netinu – hin hættulega upplýsingaóreiða – jafnvel „hatur“. Við sáum svipað í Berlín í vikunni þar sem ráðstefna til stuðnings Palestínu var stöðvuð – og Yanis Varoufakis fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja var raunverulega gerður útlægur úr Þýskalandi af innanríkisráðuneyti Þjóðverja. Hann má ekki aðeins ekki koma til Þýskalands – heldur má hann ekki senda út myndbandsskilaboð til Þjóðverja. Hann er ólöglegur. Þetta er þróunin – og Yanis Varoufakis er EKKI öfgahægri maður, hann er öfgavinstrimaður ef eitthvað er. Þetta er í báðar áttir. Þannig að; kæru áhorfendur sem eruð að hlusta, til vinstri eða hægri – ekki láta berast með strauminum, þessari ríku tilhneigingu á meðal frjálslynda vinstrisins eða öllu heldur auðvitað frjálslyndu glóbalísku miðjunnar – um að vísast sé að banna pólitískar skoðanir í stað þess að takast á við þær. Þetta er aldrei gert undir því yfirskini að nú skuli banna þessa skoðun eða þessa stjórnmálastefnu, heldur eru hin áhrifaríku nýju hugtök notuð, hatursorðræða, upplýsingaóreiða og öfgastefna. Því tökum við notkun þessara hugtaka alltaf með fyrirvara, því að eins og þið sjáið af þessum tveimur dæmum – ef stjórnvöld komast upp með hvað sem er með því að beita þessum hugtökum fyrir sig, þá lifum við ekki lengur í frjálslyndum lýðræðisríkjum.

*

Annað. Við hér á ritstjórninni rákum augun í það í vikunni að nú eru skipuleggjendur formlega farnir að keyra kostaðar auglýsingar fyrir viðburðinn Enhanced Olympics sem á að vera haldinn árið 2025, þar sem íþróttagörpum verður leyft að taka þátt án lyfjaprófa. Stofnandi viðburðarins er Aron D’Souza, fáum brot úr hlaðvarpsviðtali við hann. Brot spilað. Já, hlaup, sund, bardagar og lyftingar – keppt í öllu – og þú mátt nota hvaða stera, hvaða lyf, hvað sem er í rauninni sem getur hjálpað þér að styrkja líkamann. Þetta er ekki óumdeilt – augljóslega er þetta frekar sturluð pæling – en það var tilkynnt um það hér á dögunum að mjög stór nöfn í vísifjárfestingum í Bandaríkjum væru að koma að borðinu – Peter Thiel er að fjárfesta í þessum nýju Ólympíuleikum, Balaji Srinivasan fjárfestir líka og Christian Angermeyer – þannig að þetta er ekkert grín, þetta eru alvöru fjárfestar, þetta er mögulega í alvöru að fara að verða að veruleika – Ólympíuleikar án lyfjaprófa. Peningana á að nota í að borga íþróttamönnum fyrir að taka þátt í fyrstu leikunum – og þar hafa menn þegar náð árangri; ástralski sundkappinn James Magnussen - sem annars var hættur að keppa í sundi - hefur fallist á að taka þátt í leikunum og lyfja sig í von um að bæta heimsmetið í fimmtíu metra heimsmetið - ef hann fær ákveðna peningaupphæð. Þannig að þetta er spennandi – á að vera 2025 – hefur frestast nokkrum sinnum en menn eru kokhraustir. Væri ekki forvitnilegt að þá væru komin tvö lög af heimsmetum, annað með lyfjaprófum og hitt ekki? Vekur upp ýmsar forvitnilegar siðferðislegar pælingar – hversu langt göngum við í að halda aftur af “framförum” vegna viðkvæmni okkar fyrir inngripum – og hvað er einfaldlega of langt gengið?

Á þessum nótum. Hlustaði á viðtal við Bryan Johnson gaurinn sem er að reyna að snúa við öldrunarferlinu – og hann var að tala um að við bara vitum ekkert hvað er fram undan í gervigreind – ef hann er með nanóvélmenni í líkama sínum að snúa við öldrun og endurnýja frumur - hvað er hann þá? Vélmenni? Sílíkon endist betur.

*

Stuttlega, að lokum: Rapparadeilur. Vinsælasti rappari heims, Drake og rapparinn Rick Ross - menn sem unnu töluvert saman hér á árum áður - eru í beefi – eins og sagt er. Þeir eiga í illdeilum sín á milli. Það lak lag frá Drake þar sem hann var að lítilsvirða aðra rappara og þá brást Rick Ross illa við og fór að ýja að því að Drake hafi farið í lýtaaðgerð. Það stóð ekki á svörum frá Drake sem sagði allan árangur Rick Ross á metsölulistum sér að þakka – og þannig hefur þetta gengið á með pillum sem fara á milli rapparanna. Ein athugasemd Drake var athugasemd sem mér persónulega sárnaði – hann birti mynd af heimili Rick Ross og gerði lítið úr heimili hans á Miami; This shit the Miami starter pack, skrifaði Drake - þetta er Miami fyrir byrjendur - you living in a content creator crib - þú býrð í húsi fyrir content creatora – það er að segja fólk sem býr til efni fyrir samfélagsmiðla. Ritstjórinn upplifir sig sem content creator – skapara – og hann kærir sig ekki um svona lítilsvirðingu frá vinsælasta rappara mannkynssögunnar. Drake og Rick Ross. Ég var að flytja á nýjan stað á dögunum sjálfur, og ég er stoltur af því að búa í content creator crib.

*

Jæja. Að þessu öllu sögðu. Þetta verður ekki mikið lengra hjá okkur að sinni hér í fréttum vikunnar. Hvar sem þið eruð að hlusta - í alvöru, fylgið okkur. Við minnum á samstarfsaðila okkar, Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Myntkaup. Við minnum á kjörorð fréttaþáttarins, ást á ættjörðu, ást á sannleika. Og svo boðum við að við munum sjást hér aftur að viku liðinni – næsta föstudag. Þangað til þá; Guð blessi ykkur.

0 Comments