Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00
Transcript
3

Fréttir vikunnar | Stærra ríkisvald fyrir launþega, gervilýðræði og ert þú hægripopúlisti?

Fæðingartíðni og hægripopúlismi, kjarasamningar, vélmenni og „hverfiskosningar“ hja Reykjavíkurborg.
3

Í fréttum vikunnar er fjallað um þá útbreiddu afstöðu að eðlilegt sé að gefast einfaldlega upp fyrir hruninni fæðingartíðni í landinu (og að það sé „hægripopúlismi“ að gera það ekki), svo er rætt um þá reglulegu stækkun ríkisvalds sem fylgir hverjum kjarasamningi sem gerður er á almennum vinnumarkaði, epískt nýtt vélmenni sem gæti breytt heiminum, nýtt skilti Reykjavíkurborgar í Breiðholti, TikTok-bann í Bandaríkjunum og sitthvað fleira.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Myntkaup.

Styðja og fá efni fyrir áskrifendur

Fá stundum ókeypis greinar á póstlista:


Lausleg uppskrift af því sem sagt er, athugum að talað orð gildir og í rituðu útgáfuna vantar verulegan hluta efnisins:

Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra, það er 15. mars 2024 og við erum í banastuði – í þessum vikulega fréttaþætti með einföld grunngildi, ást á ættjörðu, ást á sannleika. Það er ýmislegt um að vera – kæru áhorfendur og það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag.

Samstarf við fyrirtæki rekið.

Byrjum hér: Þetta leit ekki vel út endilega en að lokum náðust þó kjarasamningar á milli Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar launþega í seinustu viku. Eins og verið hefur síðustu áratugi voru þessar kjaraviðræður ekki bara á milli atvinnurekenda og launþega, heldur var ríkisvaldið þriðji aðilinn í viðræðunum, þótt í orði kveðnu og held ég í lögunum eigi þetta ekki að vera svoleiðis. En þetta er svoleiðis. Í þetta skiptið féllst ríkisvaldið á að leggja til 80 milljarða króna til þess að atvinnurekendur og launþegar gætu komist að samkomulagi – og svona heldur þetta áfram, á fjögurra ára fresti er búið til veglegt augnablik þar sem ríkisvaldið stóreykur útgjöld sín og kemur út sem hetja dagsins. Eina lausnin í vinnudeilum á „frjálsum markaði“ er sífellt stærra ríkisvald, sem er þá í rauninn að borga hluta launanna fyrir atvinnulífið? Fer eftir því hvernig maður lítur á það. 

Eins og Morgunblaðið tók saman í vikunni eru ríkisútgjöld á sama tíma að stóraukast á öðrum sviðum; nýlega tók ríkið á sig um 60 milljarða króna skuldbindingu vegna kaupa á fasteignum í Grindavík, ný Þjóðarhöll á að rísa loksins fyrir 15 milljarða (þeir verða væntanlega fleiri) og svo eru það kjarasamningarnir upp á 80 milljarða. Gangi all­ar áætlan­ir eft­ir er sam­an­lagt heild­ar­um­fang kostnaðar hins op­in­bera við þessi stór­verk­efni um 156 millj­arðar króna á næstu fjór­um árum. Það eru 156 milljarðar sem bætast við það sem er nú þegar mikill hallarekstur. Hver ætlar að borga fyrir þetta? Þú! Með hærri sköttum, eins og alltaf. Við getum rifjað það upp þegar ríkisstjórnin lagði sérstakt forvarnargjald á almenning hérna um árið – tímabundið forvarnargjald eins og það var kallað – meðal annars til að fjármagna varnargarða í Grindavík. Nú þegar Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er í Silfrinu að ræða útgjöld ríkissjóðs – nefnir hann forvarnargjaldið og allt í einu er það hætt að hljóma mjög tímabundið. Hvernig á að fjármagna alla eyðsluna, með því að festa nýja skatta í sessi - eða auka tekjur ríkissjóðs til frambúðar, eins og er líka hægt að kalla það. Fáum Sigurð Inga.

Já, þetta minnir okkur á að ekkert er varanlegra en tímabundnar skattahækkanir.

Við erum svo sem að borga fyrir ýmislegt skynsamlegt þarna sýnist mér, nú á að innleiða gjaldfrjálsar skólamáltíðir, það getur ekki verið slæmt – en eins og einhver benti á, munu börnin borga fyrir þær máltíðir sjálf, með margföldum vöxtum í þyngri skattlagningu í framtíðinni. Ekkert til sem heitir ókeypis hádegismatur…

Eitt sem er raunverulega skynsamlegt í kjarapakka ríkisstjórnarinnar, langþráð breyting sem þarna er fram komin er hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi. Hún hefur lengi staðið í stað í 600.000 krónum – þannig að sama þótt þú sért með milljón á mánuði í laun - færðu bara 600 þúsund - en á nú að hækka í áföngum upp í 700.000, 800.000 og svo 900.000 krónur árið 2026. Þetta eru loksins fín skilaboð inn í barneignaumræðuna þótt vissulega sé hálfdapurlegt hvernig stjórnarráðið orðar síðan áform um að tryggja börnum eftir 12 mánaða aldur leikskólapláss, orðrétt: „Aðilar munu taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.“  Vinna með markvissum hætti – loforðin eru ekki glæstari en þetta.

Þetta er ömurlegt. Stjórnvöld eru almennt að bregðast á þessu sviði, að tryggja barnafólki sem mýksta lendingu í fjármálum og leikskólamálum, svo að reynsla þeirra af því að eignast eitt barn sé ekki: Úff, við bara eiginlega ráðum ekki við að gera þetta aftur. Ég hef áður rætt það í þessum þætti hve gífurlega áríðandi það er að stjórnvöld leggi allt sitt af mörkum til að hvetja Íslendinga til barneigna. Fæðingartíðni hefur hrunið á Íslandi og mælist nú í 1,59 barni á hverja konu. Hún þarf að vera 2,1 til að mannfjöldinn viðhaldi sér – og enn hærri svo að okkur fjölgi. 

Að sönnu er lág fæðingartíðni alþjóðlegt vandamál, eins og Freyr Rögnvaldsson blaðamaður gerði grein fyrir í grein sem hann skrifaði á Samstöðina á dögunum – greinilega kominn til starfa þar, var áður á Heimildinni – Freyr tók það ágætlega saman að þróunin er þessi víða um heim, að fæðingartíðni er mjög víða hrunin. Hitt var þó áhugaverðara í grein Freys, nefnilega þær ályktanir sem hann dregur um það hvað þetta hrun þýðir og hvernig við getum leyst vandann. Freyr skrifar: „Ísland er þar með langt frá því að geta viðhaldið náttúrulegum mannfjölda í landinu og þarf nauðsynlega á innflytjendum að halda til að svo megi verða…

Ef ekki kemur til innflutningur á fólki munu á Íslandi þannig verða færri hendur til verka, draga mun úr verðmætasköpun, og þjóðin mun grána verulega, en það hugtak er haft um þjóðir þar sem meðalaldur fer hækkandi og frjósemi dvínandi. Slíkt er og að gerast í allri Evrópu, ekkert Evrópuríki nær yfir 2,1 barna frjósemismarkið. Flest þeirra eru raunar víðs fjarri því marki.“

Sem sagt: Eina leiðin okkar út úr vandanum er að flytja inn vinnuafl úr fátækari heimshlutum, segir Freyr Rögnvaldsson. Það er eina leiðin. Þú, kæri áhorfandi, lesandi, hlustandi, gætir verið að hugsa með þér; jú, ókei, auðvitað munu innflytjendur koma hér til starfa í einhverjum mæli en væri samt ekki á sama tíma hægt að leggja meiri áherslu á að einhvern veginn hvetja fólk sem er hér nú þegar til að eignast fleiri börn og leysa vandamálið hægt og rólega þannig, búa til góða hvata? Nei, útskýrir Freyr í greininni, engar svoleiðis hvatapælingar, þar ertu kominn á mjög hálar pólitískar slóðir. Freyr skrifar:

„Þetta er umræðuefni um alla álfuna, einkum og sér í lagi eru hægri popúlískir þjóðarleiðtogar uppteknir af gránandi löndum sínum og hafa lagt í miklar æfingar til að auka frjósemi og fæðingartíðni í löndunum. Í Ungverjalandi, svo dæmi séu tekin, fær fólk sem eignast þrjú börn veglega styrki til húsakaupa og lán til hins sama á góðum kjörum. 

Þannig var í Búdapest í september síðastliðnum haldin mannfjöldaráðstefna, í fimmta sinn á síðustu tíu árum, þar sem takast átti á við þetta vandamál. Meðal gesta var hægripopúlistinn Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, sem einnig er afar upptekin af frjósemi kvenna. Einnig var á ráðstefnunni Jordan nokkur Peterson, af öllum mönnum. Engum sögum fer að því að frjósemi ungverskra kvenna hafi aukist verulega eftir þessa ráðstefnu.“ Tilvitnun lýkur. Nei, eins og Freyr segir: Engum sögum fer af árangrinum af þessari asnalegu, tilgangslausu ráðstefnu! Alveg eins gott að sleppa þessu bara, hægri popúlistar!

Það er eitthvað djúplega skrýtið við þetta hugarfar; að gefast bara upp fyrir þeim vanda að fólk sjái ekki möguleika á að fjölga sér lengur, sem í skilningi flestra forfeðra okkar hefur verið æðsti tilgangur lífsins hingað til. Neibb, að yfirleitt ræða málið er hægri popúlismi – hefurðu ekki heyrt um innflutning vinnuafls? Já, innflutningur vinnuafls er eina lausnin og eina nauðsynlega viðbragðið í augum sumra, sem er dapurlega nauðhyggja. Hvers konar vinstrimennska er það að sætta sig við að efnahagslegar aðstæður fólks tryggi því ekki möguleika á að fjölga sér?  Og ekki aðeins það: Hvers konar nútímanýlendustefna er það að telja það sjálfsagt að Vesturlönd uppfylli sínar þarfir með því að teygja sig stöðugt og sífellt meira til fátækari ríkja eftir öflugu vinnandi fólki og lokki það til sín með betri kjörum? Hvað situr að lokum eftir í þeim samfélögum, sem fólk er að yfirgefa til að koma að vinna fyrir okkur? Ég hugsa að við Íslendingar hefðum áhyggjur af því ef of mikið af klárum Íslendingum væru að flytja annað vegna atvinnutækifæra, þetta er reyndar í vissum skilningi nú þegar áhyggjuefni, skilst mér. En við gefum ekki mikið fyrir áhyggjur annarra af þessu sama. Hugarfar, hugarfar, hugarfar. Hægri popúlistarnir; á meðal þess sem einmitt Ungverjar hafa gert er að veita fjögurra barna mæðrum eilífðarundanþágu frá tekjuskatti og öllum konum sem verða mæður fyrir þrítugt líka, skilst mér. Þær þurfa ekki að borga tekjuskatt. Öfgar! Jæja.

Rætt um TikTok, löggjöf dómsmálaráðherra og hverfiskosningar. Kvatt kurteislega.

3 Comments