Í fréttum vikunnar er fjallað um stríðshauka tilneydda í forsetaframboð, stöðu Íslands ef Bandaríkin glata áhrifum sínum, „hatursatkvæði“ Í Eurovision, rasisma á íslenskum samfélagsmiðlum og nýja skýrslu upp úr gögnum sem lekið var frá alþjóðlegum transmeðferðarsamtökum.
Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Myntkaup.
Eftirfarandi er lausleg uppskrift af því sem hér kemur fram en ef vísa skal í orð ritstjórans er bent á að talað orð gildir:
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra – þann 8. mars 2024 – þetta hér er sjálfstæður fréttaþáttur með einföld grunngildi; ást á ættjörðu, ást á sannleika; það er nýr dagur ný tækifæri kæru vinir og þetta hér er bara byrjunin. Við fjöllum um málefni líðandi stundar, ef þið horfið á þennan þátt, ættuð þið ef þið hefðuð hina nauðsynlegu stóísku yfirvegun, að geta sleppt því að horfa á fréttir annarra miðla – og treyst því næstum því, að með því að fylgjast með þessu færi fátt fram hjá ykkur. Ef það færi fram hjá ykkur, væri það líklega vegna þess að sá var vilji Guðs.
Snorri Másson ritstjóri – ef þið eruð ekki áskrifendur nú þegar, farið inn á ritstjóri.is – þar er fjöldi greina, umfangsmikilla umfjallana, rannsóknarblaðamennsku, þannig að maður segi það bara hreint út – við störfum á frjálsum markaði hér í fréttum vikunnar sem koma út öllum að kostnaðarlausu í hverri viku – erum ekki háð menningarmálaráðuneytinu fyrir rekstrarstyrk á hverju ári, eins og á nú að festa í sessi, það er komin ný fjölmiðlastefna ríkisvaldsins. Ýmislegt bitastætt þar en ég ætla ekki að kæfa ykkur úr leiðindum; einn moli, nú á að gera blaðamennsku að grunnnámi í Háskóla Íslands í stað meistaranáms, meðal annars vegna þess að, eins og segir í stefnunni: „Mikilvægt er að mennta fólk með góðan og traustan grunn í blaðamennsku til þess að viðhalda samfélagslegu trausti til fjölmiðla og sporna gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum.“ Þá er eins gott að allir hefji ferilinn í ríkisháskólanum og læri hin réttu vinnubrögð – annars missum við endanlega stjórn á upplýsingaóreiðunni. Hvað gætum við gert næst?Gætum gert starfið leyfisskylt, að maður þurfi leyfi frá ríkinu til að stunda blaðamennsku. Bara hugmynd. Til að tækla upplýsingaóreiðuna.
Við erum á frjálsum markaði - skapandi geirinn af því að hann skapar verðmæti -og við erum í samstarfi við öflug fyrirtæki.
Reykjavík Foto. - Þ. Þorgrímsson. – Myntkaup.
Að þessu sögðu. Hér setjumst við einu sinni í viku og förum yfir það helsta. Hvað er helst núna? Aftur útlendingamálin, ógnarlegt mansalsmál, hernaðaruppbygging víða um heim, transmál, TikTok og ég veit ekki hvað og hvað og hvað. Hægt að nefna það hér að Bitcoin fór upp í 69.000 Bandaríkjadali í vikunni og hefur þar með náð fyrra hámarki – sem það hrundi úr árið 2021 og fór aftur niður í um 15.000 dollara. Núna er það í um 66 þúsundum, þegar þetta er tekið saman.
Ótengt því, mansalsmál; Davíð Viðarsson, sem áður hét Quang Le, umfangsmikill rekstrarmaður í veitinga-, þrifa- og gistiheimilabransanum, upphaflega frá Víetnam en hefur lengi stundað viðskipti á Íslandi, hann er til rannsóknar í einhverri umfangsmestu mansalsrannsókn á Íslandi til margra ára. Fjöldi veitingastaða og verslana og gistiheimila er undir og í einhverjum frétutm var talað um að fleiri en 100 lögreglumenn hefðu tekið þátt í aðgerðum í vikunni. Einkar merkileg atburðarás og sýnir að undir yfirborðinu kraumar ýmislegt í íslensku samfélagi, sem maður auðvitað áttar sig ekki á – menn eru að tala um skipulagða glæpastarfsemi, sem sagt hálfgerða mafíu – Inn í þetta blandast Wok On, sem er fínn matsölustaður. Greinilega hluti af spilaborg sem nú er að hrynja.
*
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor virðist vilja vera forseti Íslands. Hann er auðvitað ekki sjálfur að ota sér fram, heldur er náttúrulega eins og alltaf verið að liggur við þvinga hann í þetta – af engum öðrum en Gunna í Gunna og Felix, Felix eiginmaður Baldurs – Gunni skorar á þá tvo að fara fram, þ.e. Baldur, og býr til Facebook-hóp! Þetta gerir hann væntanlega alveg án þess að Baldur sé með í ráðum… Enn og aftur, það á augljóslega að þvinga Baldur í embættið – mögulega fellst hann á þetta. Tilneyddur. Plís Baldur.
Baldur Þórhallsson forseti – það væri áhugavert ef hann og Katrín Jakobsdóttir tækjust á um embættið, og væri fróðlegt að sjá hvort menn færu þá að rífast um varnarmál í kosningabaráttunni. NATO-Kata eins og hún er stundum uppnefnd núna - var eitt sinn á móti veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu, en hún hefur þurft að leggja þá hugsjón rækilega til hliðar á undanförnum árum. Baldur hins vegar er djúpstæður NATO-sinni og ekki aðeins það, hann vill viðveru varanlegs varnarliðs á Íslandi – hvort sem það er erlent eða innlent – varnarlið, til að verja landið frá óvinaher á meðan liðsauki berst frá útlöndum. Hann telur að það gæti gert gagn.
Þetta er það vafamál sem við stöndum frammi fyrir á þessum síðustu og verstu tímum, hvort er hættulegra að hafa varnir eða hafa ekki varnir? VG hefur verið á því að hafa ekki varnir. Ég gleymi aldrei fyrirsögn frá flokksbróður Katrínar Jakobsdóttur, Stefáni Pálssyni sagnfræðingi, sem vandaði Baldri Þórhallssyni ekki kveðjurnar í viðtali í Fréttablaðinu árið 2022, þar sem hann fyrirsögnin var: Segir Baldur fá stríðshugmyndir úr borðspilum. Stefán sagði: “Baldur Þórhallsson hefur fyrir löngu tekið sér stöðu sem einn helsti stríðshaukur landsins. Hann heyrir til þeim hópi fólks sem lítur á það sem hálfgerðan álitshnekki fyrir Ísland ef erlend ríki standi ekki í röðum og vilji sprengja okkur í loft upp.”
Stefán hélt áfram: „Hugmyndir Baldurs um hernað virðast helst fengnar úr borðspilum og gömlum stríðsmyndum, með þessari skringilegu hugmynd um litla varnarsveit sem haldi öflugum óvinaflota í skefjum á meðan beðið er eftir liðsauka.“ Stefán sagði svo:
„Öryggi Íslands verður best tryggt með því að beina orku og fjármunum að þeim raunverulegu öryggisógnum sem að okkur steðja, svo sem á sviði náttúruvár, tölvuglæpa og sjúkdóma, í stað þess að flækja sig í hernaðarkerfi annarra ríkja. Herstöð er skotmark, var sagt hér fyrr á árum. Það á enn þá við,“ segir Stefán.
Já – herstöð er skotmark segir Stefán Pálsson – Baldur, sem gæti orðið forseti, er á öðru máli.
*
Það eru miklar blikur á lofti í alþjóðamálum og hlutirnir eru að breytast hratt.
Sagt var frá því í vikunni að Ríkjabandalagið BRICS stefnir á að koma sér upp greiðslumiðlunarkerfi byggðu á bálkakeðjutækni (sem er skilst mér líklega tæknin sem framtíðarfjármálainnviðir verða byggðir á – sama tækni og Bitcoin, gúglið þetta) og kerfið á að liðka fyrir viðskiptum ríkjanna á milli án þess að nota þurfi Bandaríkjadal. Þetta eru mikil tíðindi í alþjóðastjórnmálum. Það hefur verið styrkur Bandaríkjadalsins á okkar líftíma að hann er einn allra öruggasti gjaldmiðillinn í alþjóðaviðskiptum – en þetta gæti verið að breytast. Það hefur auðvitað lengi verið varað við þverrandi áhrifum Bandaríkjanna en þetta er raunverulega núna farið að líta ekki nógu vel út. BRICS voru Brasilía, Rússland, Indland, Kína, Suður-Afríka – svo hafa Sádí Arabía, Íran, Egyptaland, Eþíópía og Sameinuðu arabísku furstadæmin bæst við – BRICS+ – samanlagt búa 45% jarðarbúa í þessu ríkjabandalagi, þrír og hálfur milljarður, þau ráða yfir 44% af olíu heims.
Þannig að þetta eru ekki smáríki - Evrópa eru smáríki, þar eru 750 milljónir manna, 450 milljónir í ESB – þetta eru stórveldi í BRICS sem vilja ná heimsyfirráðum. Kínverjar eru þegar komnir með mjög sterka stöðu í Afríku í gegnum kurteislega nýlendustefnu sína þar, með því að byggja upp innviði og kaupa innviði, eiga innviði, eins og brýr og hafnir. Á sama tíma beita önnur ríki í sambandinu eins og Rússar öllu vægðarlausari aðferðum – stríðsrekstri – við að tryggja eigin hagsmuni – og þeir virðast komast upp með þær aðferðir án mikilla athugasemda annarra bandalagsríkja.
Þannig að eftir því sem þessum ríkjum vex fiskur um hrygg og efnahagslegir yfirburðir Bandaríkjanna halda áfram að þverra – og enn frekar ef Donald Trump kemst til valda sem hljómar eins og hann hafi áhuga á að endurskoða hlutverk Bandaríkjanna sem alheimslögreglu sem sér um varnir fyrir Vesturlönd – hann vill endurskoða NATO – þá erum við Íslendingar auðvitað komnir í gerbreytta stöðu. Að hverjum höllum við okkur í varnarmálum ef ekki Bandaríkjunum? Auðvitað viljum við áfram njóta verndar Bandaríkjamanna og Guð gefi að það verði áfram hægt.
Samstaða Vesturlanda er ekki eins og hún var hérna á árum áður. Átökin eru að harðna innan vestrænu blokkarinnar um stuðning við Úkraínu. Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefur verið að glíma við vandræðalegan leka úr samtali þýskra hershöfðingja í vikunni, þar sem þeir ræða opinskátt um mögulegar hernaðaraðgerðir gegn Rússum. Þrátt fyrir að Þýskaland standi augljóslega þétt við bakið á Úkraínu, hafa þeir ekki viljað senda langdrægar Taurus-eldflaugar til Úkraínumanna núna. Scholz neitar líka að daðra við það að senda þýska hermenn til Úkraínu, sem hann segir að Taurus-sending myndi fela í sér. Á sama tíma kom Scholz fólki á óvart í vikunni með því að lýsa stuðningi við Julian Assange, sem Bandaríkin eru að reyna að fá framseldan – sem hlýtur að vera yfirlýsing sem er þeim á móti skapi. Að því sögðu þá er það hreint ótrúlegt að fylgjast með breytingu umræðunnar í Þýskalandi, þar sem meirihluti fólks er orðinn fylgjandi því að herskylda verði tekin upp að nýju. Maður veltir fyrir sér hvort núlifandi kynslóðir átti sig á hvað herskylda er, hún er mjög svo raunhæfi möguleikinn á að fara raunverulega þú sjálfur í stríð og vera skotinn til bana með vélbyssu og koma ekki aftur heim til fjölskyldu þinnar. Það er stríð – við skulum ekki gleyma því.
Heimsyfirráð Bandaríkjanna - hvað eiga Íslendingar að gera? Spurning hvort Evrópusambandið og Evrópusamstarfið þróist þá – með sífellt minni tengslum við Bandaríkin – út í að vera hernaðarbandalag hægt og rólega. Evrópusinnaðir varnarmálaáhugamenn hér heima væru ekkert að hata það. Það eru margir sem halda því fram að sú sé þróunin og að sá sé vilji til dæmis Ursulu von der Leyen sem ræður þar lögum og lofum. Það var verið að samþykkja stórátak í vígvæðingu ríkjasambandsins í vikunni, í hergagnaframleiðslu í flestum ríkjum sambandsins. Hræðileg þróun, alveg skelfileg í alla staði! Og okkar staða óviss í þessu. Vandræðalega við þetta allt saman er að Íslendingar munu vegna þægilegrar stöðu hjá Bandaríkjunum núna ekki velta þessum málum fyrir sér af neinni alvöru fyrr en það er mögulega orðið of seint.
*
Yfir í annað. Það er verulegur núningur þessa dagana í allri umræðu um útlendingamál á Íslandi. Menntaskólakennari var rekinn vegna vægast sagt ógeðslegra ummæla um keppanda í Eurovision (alltaf vafamál hvort menn eiga að missa starfið vegna stjórnmálaskoðana, en alls ekki galið í þessu máli að halda því fram að þarna hafi menn farið langt yfir ákveðna línu, að tala um illa skeinda Palestínuaraba - þetta er óásættanlegt). Að öðru leyti snerist Eurovision, eins og mátti búast við kannski, upp í umræður um kynþátt og stríð – ég hefði getað sagt mönnum að Bashar myndi ekki vinna þrátt fyrir að vera með besta lagið – Velkominn í villta vestrið, raunverulega ágætt lag – þögli meirihlutinn lætur sitt ekki eftir liggja og kýs alltaf leiðinlegasta atriðið – sambærileg atburðarás varð á sínum tíma þegar Reykjavíkurdætur voru sigurstranglegar í augum góða fólksins en „Dætur“ unnu. Maður lærði af reynslunni þá. Í þetta skiptið var keppnin á milli Bashar með Villta vestrið og Heru með eitthvað lag – og eins og ég segi: Niðurstaðan kom ritstjóranum ekki á óvart, en hún vakti upp slíka heift í umræðunni að maður sá status á Facebook þar sem söngkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir kallaði atkvæði sem ekki fóru til Bashar „hatursatkvæði“ – ekki rétt atkvæði, sama sem: Hatursatkvæði. Vel í látið, vel í látið, hvað gerir maður ekki í nafni haturs þessa dagana…
Að vísu eru sumir reyndar að ganga ansi langt í rasískum athugasemdum á netinu þessa dagana, það er sannarlega umhugsunarefni. Það er ógeðfellt að sjá – og það væri óskandi að menn gleymdu sér ekki í allri þessari umræðu og leyfðu sér ekki að berast með einhverjum straum þangað sem engum líður vel og ekkert gott gerist, nokkurn tíman: Í að hata annað mannfólk vegna þess hvernig það lítur út. Það er ógeðsleg tilfinning – sem menn bera ábyrgð á að lækna sig af ef þeir finna fyrir henni, en ekki að espa hana upp í hver öðrum.
Ég hef áður rætt það í þessum þætti; fólk verður að hafa vitsmunalega stillingu til þess að nálgast öll þessi mál af yfirvegun. Hælisleitendakerfið hefur verið í ólestri hér – það er rétt – þá þarf að taka á því í rólegheitum, en ekki að gjörsamlega missa stjórn á sjálfum sér og fara að ausa svívirðingum yfir harðduglegt fólk sem kemur hingað til að skapa sér líf og byggja upp gott samfélag. Það er vissulega misjafn sauður í mörgu fé – ég er hjartanlega sammála því að það fer sérstaklega illa á því þegar menn ryðjast inn á Alþingi og svívirða helga staði okkar Íslendinga – en þá segi ég aftur: Vitsmunaleg stilling – það er gjörsamlega fáránlegt að láta það eina dæmi skemma fyrir öðrum sem hingað koma á jákvæðum og góðum forsendum. Við höfum áður í þessum þætti fjallað um að fjölgun innflytjenda hafi líklega verið helst til hröð hér á undanförnum árum – og það er brýnt verkefni stjórnvalda að stilla það af með skynsamlegum hætti á næstu árum. En enn fremur er það verkefni stjórnvalda að tryggja það - eða gera sitt til að tryggja það - að fólkið sem er komið, geti orðið Íslendingar – sem tala íslensku og vilja byggja upp íslenskt samfélag. Flestir vilja það, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Í verðmætum gögnum frá Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, kemur fram að sjö af hverjum tíu innflytjendum hér á landi sé búinn að vera hér lengur en í fimm ár. Þar kemur einnig fram að helmingur innflytjenda segist vilja setjast að hér á landi. Helmingurinn vill setjast að.
Þetta eru sem sagt ekki bara einhverjir farandverkamenn sem stefna ekki á sérstaka tengingu við landið, þetta er fólk sem er komið til að vera. Þess vegna þurfa skilaboðin að vera: Snilld, gerum þetta þá almennilega. Höldum sannkallaða Íslandsveislu þar sem útlendingar mynda tengsl við innfædda, börnin verða vinir og allir læra tungumálið – og allir lifa hamingjusamir til æviloka. Það er ekki staðan núna: Í þessari sömu könnun kemur fram að fimmtungur innflytjenda hefur enga færni í íslensku og 43,8% eru á byrjendastigi eins og það er kallað. Það þýðir að sextíu prósent innflytjenda hafa enga færni eða eru á byrjendastigi í tungumálinu. Flestir vilja læra íslensku en algengasta svarið fyrir ástæðu þess að menn hafa ekki látið verða af því að læra tungumálið er tímaskortur. Þessu þarf að breyta – hvernig veit ég ekki, en það er verkefni stjórnvalda, annars verða hér til tvær þjóðir.
*
Í vikunni birtist umfangsmikil skýrsla um starfsemi alþjóðasamtakanna World Organisation of Transgender Health, sem hafa mikil áhrif á stefnumótun stjórnvalda í málefnum transfólks um víða veröld. Bandaríski blaðamaðurinn Michael Shellenberger, sem hefur í gegnum tíðina lagt margt skynsamlegt af mörkum, fer fyrir þessari umfjöllun um samtökin, WPATH í skammstöfun, og eftir að hafa kafað ofan í mikið af gögnum sem lekið var innan úr WPATH ber hann starfseminni þar ekki vel söguna. Hún sé óvísindaleg í mörgum tilvikum og óábyrg gagnvart sjúklingum þeirra lækna sem ræðir um, oft mjög ungum sjúklingum með kynama. Mestallt eru gögnin samtöl sérfræðinga á milli um það hvernig beri að hátta þjónustu við til dæmis trans fólk – og þau samskipti eru væntanlega flest bara eins og gengur og gerist, fólk að bera saman bækur sínar og reyna að gera hlutina vel – en í öðrum samtölum sem hafa vakið athygli í þessari skýrslu verður ekki annað séð en að til dæmis sérfræðingar tengdir WPATH séu að senda fólk í aðgerðir eða lyfjameðferðir jafnvel meðvitaðir um að fólkið og sjúklingarnir átti sig ekki á mögulegum hættulegum langtímaafleiðingum þeirra aðferða sem gripið er til, aftur, þetta er oft mjög ungt fólk. Fjölmargt annað er tínt til í þessu og í grunninn er því haldið fram þarna að vinnubrögð innan WPATH séu langt frá því að vera öll vísindaleg samkvæmt ítrustu kröfum læknisfræðinnar. Það virðast vera staðreyndir málsins, þótt vafalaust haldi samtökin öðru fram.
Mörgum finnst síðan alls ekki ástæða til að ræða svona mögulegar langtímaafleiðingar neitt sérstaklega. Slík mótrök er til dæmis að finna í grein tímaritsins Scientific American, sem talar mjög fyrir til dæmis hormónameðferðum. Það tímarit fullyrðir að einhver gögn bendi til þess að áhrif þess að neita börnum með kynama um meðferð séu verri en hvers kyns aukaverkanir sem gætu hlotist af frestun kynþroska með lyfjainngripi. Síðan vísar Scientific American til þess að „viðmið læknasamfélagsins“ séu sem sagt öll á þá leið að jákvæð áhrif inngripa séu mikilvægari og vegi þyngra en áhættan sem kann að fylgja þeim.
Þannig að það eru þessir tveir skólar; að inngrip geti verið hættuleg og að það beri að stíga varlega til jarðar þar – eða að inngrip séu á endanum alltaf þess virði, sama hver áhættan er. Reyndar líka fleiri skólar til væntanlega um alls konar millivegi og hver veit hvað.
En það er einmitt oft vísað til „viðmiða læknasamfélagsins og helstu sérfræðinga“ en ef samtök sem liggja þar að baki, eins og WPATH, virðast ekkert frekar en aðrir vita hvað þeir eru að gera, þurfa menn þá ekki að gæta sín að leggja ekki of mikið traust á þau? Hér í íslenska heilbrigðiskerfinu hefur einmitt viðmiðum frá WPATH verið fylgt að töluverðu leyti hingað til. Það er kannski dapurlega uppgötvunin í þessu - eins og svo sem í öðrum málum á undanförnum árum - að það sé ekki alltaf ráðlegt að treysta alþjóðasamtökum og alþjóðlegum sérfræðingum í blindni, heldur verði maður líka að treysta sér til að leggja sjálfstætt mat á hlutina. Ekki að maður viti hvernig það mat eigi að líta út í þessum málum, Guð einn veit það – en þetta er áhugavert mál, þetta með WPATH. Sem er fjallað um erlendis, Economist, Newsweek, Telegraph, Daily Mail, New York Post og víðar, en maður sér ekki mikið gert úr í okkar ágætu íslensku miðlum. Eðlilegt er þó að menn ræði þessi mál, án upphrópana og af yfirvegun.
*
Að þessu öllu sögðu. Hér verðum við áfram í næstu viku, vikuna þar á eftir og vikuna þar á eftir. Í fréttum vikunnar erum við í samstarfi við Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson, Hringdu og Myntkaup – þetta eru á meðal fremstu fyrirtækja landsins. Ég óska ykkur góðrar helgar með bærilegasta fólki sem þið þekkið; og ef þið eruð ekki að hlusta á föstudegi, vel að merkja; ef þið eruð að detta jafnvel inn á þennan þátt sem fyrsta þátt, þá eru fréttir vikunnar nokkuð tímalaust efni, fjalla oft alls ekki bara um fréttir vikunnar, heldur eru dregnar ályktanir um samfélagsþróun til sjávar og sveita ávallt með sömu grunngildi að leiðarljósi; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst eftir viku; Guð blessi ykkur.
Fréttir vikunnar | Tilneyddir forsetaframbjóðendur, rasismi og óreiða í transsamtökum