David D. Friedman er eðlisfræðingur að mennt en hefur lagt stund á lögfræði og hagfræði með áherslu á frjálsa markaði og anarkókapítalískt kerfi. Hans framlag til anarkókapítalískrar hugmyndafræði er þýðingarmikið. Faðir David var Milton Friedman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. Í þessu viðtali fer David yfir siðferði og löggæslu í Íslendingasögunum, sem hann hefur rannsakað sérstaklega út frá hagfræðilegu sjónarhorni, við fjöllum líka um peninga, um opin og lokuð landamæri, um velferðarkerfi, um löggjöf almennt, um það hvað Milton Friedman, pabba hans, hefði þótt um Bitcoin og svo margt margt fleira.
Hér að neðan má sjá viðtalið á YouTube, þar sem boðið er upp á íslenskan texta.
Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Þ. Þorgrímsson, Myntkaup og Reykjavík Foto.
Að mati Davids er helsti ókostur velferðarkerfisins sú staðreynd að það hindrar frjálst flæði fólks. „Það sem virkaði svo vel í Bandaríkjunum var að þar var tekið við um milljón manns á ári inn í um hundrað milljón manna samfélag. Þarna á áratugunum í kringum fyrstu heimsstyrjöld, á tímanum þar sem amma mín og afi komu til Bandaríkjanna, var örari innflutningur fólks en á nokkru öðru tímabili í seinni tíma sögu. Þetta gekk upp vegna þess að Bandaríkin voru ekki velferðarríki. Þegar fólk kom til landsins varð það að fara að vinna til að halda sér uppi, þannig að flutningur þeirra kom ekki niður á þeim sem fyrir voru. Almennt séð, ef þú ert með opin landamæri, þá þarftu að hafa áhyggjur af því að fólk komi og vilji lifa á kerfinu. Ef þú ert hins vegar ekki með opin landamæri þarftu að horfast í augu við að fólki verði þá til dæmis haldið í fátækt í heimalöndum sínum, í stað þess að vera mun afkastameiri hér á Íslandi eða í Bandaríkjunum.“
Hér má athuga að sú tölfræði sem Friedman vísar til á öndverðri tuttugustu öld í Bandaríkjunum felur í sér um 1% innflutning fólks ef milljón innflytjendur koma inn í hundrað milljón manna samfélag. Á Íslandi á undanförnum árum hafa um 10.000 innflytjendur flutt til landsins í rúmlega þrjúhundruð þúsund manna samfélag, sem gerir um 3% árlegan innflutning, mun meira en á umræddum tíma í Bandaríkjunum.
„Það sem er hægt að gera, sem ég held þó að í það minnsta vestræn ríki séu ekki tilbúin til að gera, er velferðarríki fyrir þá sem búa hérna núna, en opin landamæri án velferðarkerfis fyrir innflytjendur. Ég lagði þetta til í bók minni The Machinery of Freedom fyrir meira en fimmtíu árum, að þú myndir hafa opin landamæri en að innflytjendur nytu ekki velferðarþjónustu. Á móti ættu skattar hjá þeim þá að vera lægri á móti enda fá þau ekki allan pakkann,“ segir Friedman.
Spyrill bendir á að svona nokkuð kynni að falla í grýttan jarðveg.
Friedman: „ Já, þetta fer allt í bága við hugmyndafræðinni um velferðarríkið. Jafnréttishugsjónin þar er þó ekki alveg samkvæm sjálfri sér nema menn séu þá tilbúnir að halda uppi öllum heiminum, sem þeir eru ekki, af því að þeir geta það ekki. Þannig að þarna er ákveðin hræsni.“
Share this post